Viðskipti innlent

Bónus oftast með lægsta verðið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni.
Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í þremur lágvöruverðverslunum og fjórum þjónustuverslunum víðsvegar á landinu á mánudaginn. Kostur Dalvegi neitaði að taka þátt í könnuninni. Hæsta verðið var oftast að finna í Nóatúni Austurveri í um þriðjungi tilvika. Í þriðjungi tilvika var munurinn á hæsta og lægsta verði 25-50%.

Af þeim 84 vörutegundum sem skoðaðar voru var Nóatún með hæsta verðið í 31 tilviki en Samkaup Úrval Akureyri og Hagkaup Eiðistorgi í 26 tilvikum. Hjá Bónus í Borgarnesi var lægsta verðið á 49 vörutegundum af þeim 84 sem skoðaðar voru. Í þeim tilvikum sem umbeðin vara var bæði til í Bónus og Krónunni var um eða undir 2 kr. verðmunur í þriðjungi tilfella.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru til í Hagkaupum eða 82 af 84 og næstflestar í Fjarðarkaupum eða 80 vörur. Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Bónus eða 72 af 84 og Krónan átti 73 vörur af 84.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×