Viðskipti innlent

Stefna að tvíhliða skráningu - verða áfram í Kauphöllinni

Marel. Myndin er úr safni.
Marel. Myndin er úr safni.
„Það er ekki stefna félagsins að skrá sig úr Kauphöllinni," segir Jón Ingi Herbertsson, upplýsingafulltrúi Marels. Vísir greindi frá því í dag, og vitnaði í DV, að samkvæmt fundargerð fjárfestingafélagsins Horns, að Marel yrði skráð á erlendan markað og því skráð úr Kauphöllinni.

Að sögn Jóns Inga þá er ekki rétt að félagið stefni að því að skrá sig úr Kauphöll Íslands, heldur hafi það verið opinbert markið fyrirtækisins að skrá sig einnig á erlendan markað. Því stefnir fyrirtækið á tvíhliða skráningu.

„Þetta var tilkynnt sérstaklega til Kauphallarinnar fyrir tveimur árum síðan," segir Jón Ingi og bætir við að DV dragi of mikla ályktun um það að félagið ætli að skrá sig úr Kauphöllinni. Spurður hvort það sé möguleiki á því að skrá félagið eingöngu á erlendan markað, svarar Jón Ingi það ekki vera stefnu félagsins.

Spurður hvenær fyrirtækið gæti skráð sig á erlendan markað svarar Jón því til að það sé ekki unnið eftir neinum tímaramma hvað það varðar.

Marel er verðmætasta fyrirtæki Kauphallarinnar en það er metið á 91,5 milljarða króna. Nýlega var stoðtækjaframleiðandinn Össur skráður úr Kauphöllinni. Fyrirtækið er skráð í Danmörku.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði við það tækifæri, að í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa í viðskiptaumhverfinu og á félaginu sjálfu á undanförnum árum væri eðlilegt að stíga þetta skref og leggja áherslu á hlutabréfamarkað sem getur stutt við fyrirætlanir um framtíðarvöxt félagsins.

Kauphöllin hélt hinsvegar áfram að versla með hlutabréf í fyrirtækinu, gegn vilja Össurar. Því er Össur enn skráður í Kauphöllina.


Tengdar fréttir

Marel úr Kauphöllinni eftir tvö ár

Talið er að fyrirtækið Marel verði skráð á erlendan markað eftir tvö ár samkvæmt fundargerð sem DV greinir frá á heimasíðu sinni. Þar segir að fundargerðin sé frá félaginu Horni, fjárfestingafélagi í eigu Landsbankans, sem fer með stóran hlut í Marel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×