Viðskipti innlent

Marel úr Kauphöllinni eftir tvö ár

Marel. Myndin er úr safni.
Marel. Myndin er úr safni.
Talið er að fyrirtækið Marel verði skráð á erlendan markað eftir tvö ár samkvæmt fundargerð sem DV greinir frá á heimasíðu sinni. Þar segir að fundargerðin sé frá félaginu Horni, fjárfestingafélagi í eigu Landsbankans, sem fór með stóran hlut í Marel.

Samkvæmt DV þá eru reifaðar hugmyndir í fundargerðinni um skráningu Marel á erlendan markað og því verður fyrirtækið skráð úr Kauphöllinni. Það verður hinsvegar ekki fyrr en eftir tvö ár í fyrsta lagi þar sem stjórnendur sjá ekki hag í því strax.

Horn fjárfestingarfélag ehf. seldi hlut sinn í Marel fyrr í vikunni og fékk tólf milljarða króna fyrir.

Þessum viðskiptum var flaggað í Kauphöllinni en um var að ræða stærstu einstöku hlutabréfaviðskipti þar frá hruninu.

Um var að ræða 13,8% hlut en Eyrir Invest, sem er kjölfestuhluthafi Marels, keypti rúm 3% og er eftir sem áður stærsti hluthafinn með 34,7% hlut. Á móti þessum kaupum seldi Eyrir stóran hlut í Össuri hf.

Talið er að lífeyrissjóðir hafi keypt mikið af þeim hlutum sem Horn seldi.

Marel er verðmætasta fyrirtæki Kauphallarinnar en það er metið á 91,5 milljarða króna. Nýlega var stoðtækjaframleiðandinn Össur skráður úr Kauphöllinni og síðan inn í hana aftur eftir einhliða ákvörðun Kauphallarinnar. Hægt er að nálgast frétt DV hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×