Skoðun

Ritstjóri í glerhúsi

Ragnar Halldór Hall skrifar
Athygli mín hefur verið vakin á forystugrein í Morgunblaðinu sl. föstudag, þar sem hinn hógværi og hlutlausi ritstjóri blaðsins sendir mér og fleiri lögmönnum tóninn fyrir að segja hug okkar í blaðagrein um það hvort ráðlegt sé að samþykkja lögin um Icesave-samningana eða hafna þeim. Augljóst er að skoðanir sem við létum í ljós hafa raskað jafnvægi ritstjórans. Ritstjórinn lætur sér sæma að tileinka skoðanir okkar þeim sem við höfum sum hver unnið fyrir og eiga í samkeppni við Morgunblaðið.

Lágkúra í blaðamennsku er ekkert nýmæli, en hún virðist hafa heltekið ritstjóra Morgunblaðsins í umfjöllun þess um þetta þýðingarmikla mál. Án þess að ég hafi kannað það sérstaklega tel ég mig geta fullyrt að skoðanir eru mjög skiptar meðal viðskiptamanna þeirra átta lögmanna sem birtu grein um þetta mál í vikunni varðandi það hvort greiða skuli atkvæði með eða á móti samningnum.

Ég kalla þessa blaðamennsku lágkúru ekki síst vegna þess, að þetta sama dagblað lofaði umfjöllun mína um málið talsvert á fyrri stigum, þ. e. þegar ég lýsti mig andvígan fyrri samningum um málið. En nú - þegar fyrir liggur nýr samningur sem ég tel ráðlegt að samþykkja - þá leyfir leiðarahöfundur sér að halda því fram að með því sé ég sem lögfræðingur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og nánustu klíku hans að hvetja þjóðina til að axla enn eina afleiðinguna af umsvifum hans.

Þessi skrif ritstjórans eru ekkert annað en fáránlegur samsetningur manns sem sjálfur var knúinn til þess nauðugur að víkja úr embætti seðlabankastjóra eftir að hafa látið ríkissjóð Íslands taka á sig 300 milljarða tap af óstjórn hans á bankanum. Þó að Jón Ásgeir og fyrirtæki á hans vegum hafi fengið mikið fé að láni hjá Landsbanka Íslands á sínum tíma var það ekki hann sem stofnaði til Icesave-reikninganna.

Það gerðu þeir sem ritstjórinn sjálfur hafði nánast gefið bankann meðan hann var í aðstöðu til þess sem valdamesti stjórnmálamaður landsins. Þeir menn settu svo bankann kyrfilega á hausinn með sínum eigin fjárfestingum, hjálparlaust. Að mínu áliti færi betur á því að ritstjórinn hefði ekki mjög hátt um afleiðingar af gerðum manna sem þjóðin sýpur nú seyðið af.




Skoðun

Sjá meira


×