Skoðun

Þjóðfundur VR

Lúðvík Lúðvíksson skrifar
Vantraust ríkir á milli stjórnar og hins almenna félagsmanns. Hagsmunafélag sem hefur það hlutverk að gæta 28.500 félagsmanna verður að einbeita sér að markmiði sínu. Tímabil uppbyggingar gæti hafist um leið og félagsmenn og stjórnarmenn sameinuðust um lausn málsins og horft verði til framtíðar.

Lausnin er einföld. Eina sem þarf að gera er að fara að vilja félagsmanna.

Heiti ég því að stofnað verði til Þjóðfundar til þess að komast að því hvað hinn almenni félagsmaður vill. Kanna óskir hans og áherslur. Hvernig starfshætti hann vilji sjá innan félagsins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Þjóðfundur hefur í íslensku máli haft tvíþætta merkingu. Ýmist hefur þjóðfundur merkt samkomu sem skipuð er kjörnum fulltrúum eða hann hefur verið notaður yfir almenna fundi eða samkomur um mikilvæg mál. Þjóðfundirnir þeir sem haldnir voru í Reykjavík 2009 og 2010 heppnuðust sérstaklega vel en þar voru rædd grundvallargildi samfélagsins og leið þjóðarinnar til sóknar og samstöðu. Vandamálið er einungis það að ekkert hefur verið farið eftir niðurstöðum nefndra þjóðfunda af stjórnvöldum.

Þjóðfundurinn myndi byggja á svipaðri grasrótar hugsun, en umræðuefnið þrengt og myndi snúast um VR og Lífeyrissjóð verslunarmanna. Þess er vænst að um sexhundruð gestir, valdir af handahófi úr félagaskrá, taki þátt í fundinum. Þannig er honum ætlað að endurspegla vilja félagsmanna.

1. Fulltrúar valdir með tilviljunarúrtaki úr félagaskrá.

2. Úrtakið endurspegli kynjahlutföll og búsetu.

Fundinum yrði skipt í verkþætti sem dýpkuðu sífellt umræðu um viðfangsefni fundarins. Í fyrstu yrði fjallað um þau gildi sem fundarmenn vilja að lögð séu til grundvallar nýjum starfsháttum innan VR og lífeyrissjóðsins. Þátttakendur greiddu síðan atkvæði annars vegar að þeim þáttum sem þeim finnst mestu skipta og hins vegar þeim þáttum sem þeim finnast fela í sér nýjungar. Niðurstöður fundarins verða lagðar fyrir aðalfundi.

Ég undirritaður legg til að við förum þessa leið. Sameinumst um að lægja öldurnar innan okkar raða og finnum það út hvað hinn almenni félagsmaður vill sjá gert og framkvæmum niðurstöðuna. Undirritaður er í framboði til formanns, ef ég næ kjöri þá mun ég halda Þjóðfund VR ekki seinna en næsta sumar.

 






Skoðun

Sjá meira


×