Viðskipti innlent

Útlendingar keyptu rúm 70% af öllum gistinóttum í fyrra

Heildarfjöldi seldra gistinátta var tæpar 3 milljónir árið 2010, en það er svipaður fjöldi og árið 2009. Gistinætur erlendra ríkisborgara voru 71,2% af heildarfjölda gistinátta árið 2010 og sem fyrr keyptu Þjóðverjar flestar gistinætur, þá Bretar og svo Frakkar.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofu Íslands sem hefur gefið út ritið Gistiskýrslur 2010. Í þessu riti eru birtar niðurstöður um  gistináttatalningu fyrir allar tegundir gististaða árið 2010.

Í samanburði við árið 2009 fjölgaði gistinóttum Belga hlutfallslega mest eða um rúm 25%, gistinóttum Kanadamanna fjölgaði um 14% og Bandaríkjamanna um 10%. Gistinóttum Ítala fækkaði hlutfallslega mest frá fyrra ári eða um 24%, gistinóttum Spánverja fækkaði um 20% og Japana um 17%.

Flestar gistinætur árið 2010 voru á hótelum og gistiheimilum eða 68%, á tjaldsvæðum voru 19% gistinátta og 6% á farfuglaheimilum. Gistinóttum fjölgaði milli ára á hótelum og gistiheimilum, farfuglaheimilum og heimagististöðum en fækkaði á öðrum tegundum gististaða.

Eftir landsvæðum fjölgaði gistinóttum hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi vestra. Þeim fjölgaði einnig á Austurlandi, Norðurlandi eystra og á Suðurnesjum. Gistinóttum fækkaði lítillega á Vesturlandi og Vestfjörðum miðað við árið 2009. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum mest á milli ára, um rúm 12%. Samdráttur seldra gistinátta á Suðurlandi er vegna eldgossins í Eyjafjallajökli en þrátt fyrir það voru þær tæplega 7% fleiri á síðasta ári en árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×