Viðskipti innlent

Talsverð viðbrögð á skuldabréfamarkaði við haftaáætlun

Talsverð viðbrögð hafa verið á skuldabréfamarkaði nú í morgun við áætluninni um afnám hafta sem birt var eftir lokun markaða síðastliðinn föstudag. Hefur verið töluverður kaupþrýstingur verið nú í morgunsárið á lengri óverðtryggð bréf og veltan verið mikil.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þegar þetta er ritað (kl. 11:30) nemur heildarveltan með markflokka skuldabréfa ríflega 16 milljörðum kr. frá opnun markaða nú í morgun. Nemur kröfulækkun þriggja lengstu óverðtryggðu flokkanna nú um 22-24 punktum frá opnun markaða og liggur krafa þeirra nú á bilinu 6,23%-6,98%. Auk þess hefur krafa RIKB16 lækkað töluvert þar sem af er morgni, eða um 18 punkta, og stendur hún nú í 5,07%.

Á hinn bóginn hefur krafan hækkað nokkuð á styttri óverðtryggðu flokkunum á sama tíma. Þannig hefur krafa RIKB11 hækkað um 22 punkta og krafa RIKB12 hækkað um 14 punkta. Krafa verðtryggða hluta markaðarins stendur hins vegar lítið breytt frá lokun markaðar á föstudag og hefur verðbólguálagið þar með þokast nokkuð niður á við, sér í lagi til lengri tíma.

Athygli vekur að Seðlabankinn tilkynnti í morgun um að Lánamál ríkisins myndu fylgjast náið með þróun skuldabréfamarkaðar í dag og vera reiðubúin að bregðast við sviptingum á honum með kaupum og/eða sölu á ríkisbréfum. Þessi tilkynning hefur væntanlega átt sinn þátt í að verðsveiflur á markaðinum urðu minni en ella hefði orðið, þar sem tilkynningar föstudagsins höfðu líklega talsverð áhrif á væntingar um bæði framboð og eftirspurn ríkistryggðra bréfa næsta kastið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×