Viðskipti innlent

NIB útilokar lán til OR næstu misserin

Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) útilokar að veita Orkuveitu Reykjavíkur (OR) lán á næstu misserum. Lánshæfi fyrirtækisins sé óviðunandi. Þetta kemur fram í minnisblaði forstjóra Orkuveitunnar um leit fyrirtækisins að erlendu lánsfé.

Fjallað er um málið á vefsíðu RUV. Þar segir að fulltrúar Norræna fjárfestingabankans sögðu Orkuveitunni í janúar að fyrirtækið kæmi ekki til álita sem lántaki; lánshæfi þess væri óviðunandi. Þetta kemur fram í nýju minnisblaði forstjóra Orkuveitunnar um leit að erlendu lánsfé.

Minnisblaðið er dagsett 23. mars. Það lagt fram í stjórn Orkuveitunnar í síðustu viku. Þar er fjallað um viðræður stjórnenda fyrirtækisins við erlenda banka, þar á meðal lánadrottna, frá byrjun árs 2010.

Í minnisblaðinu segir:

„Niðurstöður eru þær að helstu lánastofnanir hafa verið tregar til að lána OR og á árinu 2011 hefur komið í ljós að þær lánastofnanir sem hafa verið helstu bakhjarlar OR hafa algerlega tekið fyrir lánveitingar til OR á komandi misserum“.

Sérstaklega er tekið fram að afstaða Norræna fjárfestingabankans hafi gjörbreyst til hins verra í árslok 2010 og byrjun þessa árs. Lýst er fundi með fulltrúum bankans í ágúst í fyrra, þar sem ekki mun hafa verið hægt að skilja fulltrúa bankans öðruvísi en þannig að lánveiting til Orkuveitunnar væri til skoðunar.

Á símafundi nú í janúar, með fulltrúum þessa sama banka, Norræna fjárfestingabankans, var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn. Um það segir í minnisblaðinu:

„... afstaða þeirra þá var afdráttarlaus, OR kæmi ekki til álita sem lántaki. Mat NIB [Norræna fjárfestingabankans] á lánshæfi OR var að það væri óviðunandi og bankinn myndi ekki lána OR að svo komnu máli“.

Síðar kom tilboð um endurákvörðun vaxta á eldra láni frá bankanum. Þar átti álagið að hækka tífalt, úr 0,24 prósentum í 2,41 prósent. Síðar kom annað tilboð um nýtt vaxtaálag á þessu eldra láni, 1,9 prósent. Það tilboð var hins vegar háð því að eigendur Orkuveitunnar,  Reykjavíkurborg að langstærstum hluta, myndu leggja átta milljarða króna inn í fyrirtækið, að því er segir á vefsíðu RUV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×