Viðskipti innlent

Aukinn áhugi erlendra aðila á ríkisbréfum

Svo virðist sem áhugi erlendra aðila á ríkisbréfum hafi eitthvað glæðst í febrúar síðastliðnum frá fyrri mánuði. Samkvæmt Markaðsupplýsingum sem Lánamál sendu frá sér í gær voru erlendir aðilar stórtækir í seinna útboði mánaðarins þar sem í boði var óverðtryggði flokkurinn RIKB12.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi áhugi erlendra aðila á flokknum sé í takti við það sem við mátti búast enda er þetta stysti flokkur sem Lánamál áforma að stækka á árinu og hafa erlendir aðilar hingað til sótt mun meira í styttri flokka en þá lengri.

Í útboðinu keyptu þeir bréf í RIKB12 fyrir um 5,3 milljarða kr. að nafnverði, eða sem nemur 60% af seldu magni. Þeir eru jafnframt stærstu eigendur bréfa í flokknum en í janúarlok áttu þeir um 56% útistandandi bréfa í flokknum.

Erlendir aðilar voru einnig fyrirferðarmiklir í víxlaútboðum febrúarmánaðar þar sem gefnir voru út 3ja og 6 mánaða ríkisvíxlar. Keyptu þeir bréf í 3ja mánaða flokknum fyrir 6,7 milljarða kr. að nafnverði í flokknum en alls var tilboðum tekið fyrir 9,1 milljarð kr. Keyptu þeir þar með um 74% af seldu magni í styttri víxlaflokknum.

Í 6 mánaða flokknum keyptu þeir bréf fyrir 3,5 milljarða kr. að nafnvirði, eða sem nemur um 56% af seldu magni en alls seldu Lánamál bréf í flokknum fyrir 6,2 milljarða kr. Má því leiða að því líkur að eignarhlutdeild þeirra hafi aukist á ný í víxlum með útboðum febrúarmánaðar en í lok janúar áttu þeir helming útistandandi víxla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×