Viðskipti innlent

Segir mikilvægt að berjast fyrir hagstæðum ESB samningi

Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins fjallaði um mikilvægi þess að berjast fyrir hagstæðum aðildarsamningi við ESB í ræðu sinni á Iðnþingi í dag.

„Til þess að losna við gjaldeyrishöftin að fullu munum við væntanlega þurfa annan gjaldmiðil en íslenska krónu,“ segir Helgi.

Í tilkynningu um fundinn kemur fram að Helgi sagði það undirstrika mikilvægi þess að Ísland freisti þess að fullu afli að ná viðunandi samningum við ESB en benti á að sumir aðilar innan Samtaka iðnaðarins væru uggandi

„Það á ekki síst við um félaga okkar í mjólkur- og kjötiðnaði. Fáir eiga meira undir en þeir að samningar verði okkur Íslendingum hagfelldir. Fyrir því verður að berjast til síðustu stundar og ég hef ekki trú á því að landsmenn samþykki aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu nema samningarnir verði okkur hagstæðir,“ segir Helgi.

Helgi sagðist sjálfur munu meta innihald samninganna áður en hann ákveddi hvernig hann greiddi atkvæði. „Með hagstæðum samningum eigum við erindi í ESB. Annars ekki og þá þurfum við að halda áfram að hokra hér með þá íslensku krónu sem erlendir fjárfestar hafa nú gefist upp á – hvort sem okkur líkar betur eða verr.“

Helgi segir stórkostleg tækifæri felast í meginauðlindum landsins, hreinu vatni, orku, matvælum og landi. „Hin risavöxnu viðfangsefni jarðarbúa á næstu árum og áratugum felast í því að geta séð hinum mikla fjölda fyrir mat, vatni, orku og landrými. Þar liggur styrkur Íslands. Þar liggja tækifæri Íslands. Vandi umheimsins er tækifæri okkar. Kuldalegt. En engu að síður staðreynd,“ segir Helgi.

"Smáþjóð sem býr yfir þessum auðlindum á að hafa alla burði til að geta nýtt sér þær og lifað góðu lífi. Hún á að geta haldið háum meðaltekjum fólks, háum kaupmætti, lágu atvinnuleysi, haft öflugt atvinnulíf og gott mannlíf. Til þess að svo verði þurfum við samstöðu um uppbyggingu og nýtingu tækifæranna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×