Skoðun

Erum við í sama liði?

Kristín Á. Guðmundsdóttir skrifar
Í Fréttablaðinu sl. fimmtudag var grein eftir Pétur Magnússon, forstjóra Hrafnistuheimilanna. Þar gerir hann að umtalsefni viðtal við undirritaða sem birtist í sama blaði fyrir skemmstu. Ég verð að viðurkenna að mér urðu viðbrögð forstjórans nokkur vonbrigði, mér fannst þau einkennast af orðhengilshætti og útúrsnúningum. Mér er fullljóst að elli- og hjúkrunarheimilin eiga í vök að verjast vegna endurtekinna krafna velferðarráðuneytisins um niðurskurð. Vonbrigði mín eru að ég hef litið svo á að við værum í sama liði og bæri að snúa bökum saman með tilliti til hagsmuna starfsmanna heimilanna og þeirra sem þar búa.

Ítrekað hafa birst greinar og viðtöl við forsvarsmenn öldrunar- og hjúkrunarheimila þ.á m. forstjóra Hrafnistu sem ber sig að vonum illa undan þessum mikla niðurskurði og kröfum sem lagðar eru á herðar stjórnenda heimilisins um sparnað. Um það segir hann m.a.: "Rekstur öldrunarheimila er erfiður um þessar mundir vegna mikils niðurskurðar á framlögum frá hinu opinbera. Á Hrafnistu er svo komið að þrátt fyrir rekstur á þúsundum fermetra húsnæðis, þar sem búa og starfa tæplega tvö þúsund manns, er launakostnaður um 80 prósent rekstrarkostnaðar."

Mér sem formanni Sjúkraliðafélags Íslands er fullkunnugt um að starfsmenn Hrafnistu gera allt sem er í þeirra valdi, til að skila verkum sínum með fullri sæmd. Hinsvegar hefur það verið að koma betur og betur í ljós að ekki er hægt að ganga endalaust á þrek og velvilja fólks. Því er það ljóst að á endanum lætur eitthvað undan.

Vandamál Hrafnistu eru þau sömu og aðrar heilbrigðisstofnanir standa frammi fyrir og eiga þau af þeim sökum alla mína samúð. Það er hinsvegar algjör þversögn í því að bera sig upp undan slæmu ástandi og því hvernig niðurskurðurinn bitni á stofnuninni og neita í sama orðinu að það hafi eitthvað að segja varðandi mönnunina og gæði þjónustunnar. Samkvæmt upplýsingum af sameiginlegum fundi SLFÍ og Verkalýðsfélagsins Hlífar með starfsmönnum vistheimilisins er ástandið slæmt og ekkert ofsagt í þeim málum. Ljóst er að ástandið á einungis eftir að versna verði ekkert að gert.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×