Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum vegna Icesave óvissu

IFS greining gerir ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum um sinn vegna óvissunnar sem umlykur þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna en til stendur að birta hana 25. mars. Ákvörðun um stýrivexti verður birt á morgun, miðvikudag.

Í tilkynningu segir að fyrri bráðabirgðaspá IFS hljómaði uppá 25 punkta lækkun stýrivaxta en vegna áðurnefndrar óvissu telur greiningin að þeir haldist óbreyttir. Gangi spáin eftir og Seðlabankinn haldi öllum vöxtum óbreyttum verða vextir á viðskiptareikningum lánastofnanna 3,25% og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum 4,0%, veðlánavextir (7 daga) eru 4,25%, daglánavextir 5,25% og vextir af bindiskyldum innstæðum 3,25%.

„Yfirleitt hefur verið fylgni á milli verðbólgu og þenslu í vestrænum hagkerfum og stýrivaxtaákvarðanir þess vegna ekki vafist mikið fyrir seðlabönkum. Nú er hins vegar efnahagslegur slaki í flestum vestrænum löndum og óvenju lítið um fjárfestingar á sama tíma og verðbólga fer hækkandi," segir í tilkynningunni.

„Verðbólgan nú er augljóslega ekki vegna þenslu og eftirspurnarþrýstings í vestrænum hagkerfum heldur vegna uppskerubrests, upplausnarástands í miðausturlöndum og eftirspurnar í nýmarkaðsríkjum. Samkvæmt orðum yfirhagfræðings Seðlabanka Íslands fylgja stýrivextir ekki verðlagssveiflum nema þær fari að hafa áhrif á verðbólguvæntingar eða leiða til launahækkana.

Gengi krónunnar hefur lækkað nokkuð síðan um áramótin eða um 3,8%. Einnig hafa hrávörur hækkað mikið í verði og þá sérstaklega olía. Kjarasamningar nokkurra stórra stétta eru lausir og munu verðlagshækkanir og fréttir af launahækkunum þeirra launahæstu ekki draga úr kröfum þeirra. Þessir þættir geta komið í veg fyrir lægri vexti en ella sem kæmi afar illa við fjárfestingu í landinu sem þegar er í lágmarki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×