Viðskipti innlent

Breskur dómstóll hafnaði frávísunarkröfu Kaupþings

Undirdómur í Englandi hefur hafnað frávísunarkröfum Kaupþings  í tveimur málum sem höfðuð voru gegn Kaupþingi í London árið 2010. Málin voru höfðuð af Rawlinson & Hunter Trustees sem stýrir sjóðunum Tchenguiz Discretionary Trust (TDT) og Tchenguiz Family Trust (TFT).

Fjallað er um málið á vefsíðu skilanefndar Kaupþings. Þar segir að úrskurður dómsins í dag varðar kröfu Kaupþings um frávísun dómsmála sem höfðuð voru of TDT og TFT fyrir dómstólum í Englandi. Kröfur sem hafðar eru uppi í málunum eru þegar til meðferðar fyrir dómi á Íslandi. Kröfum Kaupþings um frávísun var hafnað en Kaupþing hyggst sækja um leyfi til að áfrýja niðurstöðunni.

Einu áhrif dómsniðurstöðunnar eru að málaferli um efnishlið krafna Rawlinson & Hunter geta hafist í Englandi og að enski dómurinn mun ekki bíða niðurstöðu sambærilegra málaferla sem þegar eru hafin á Íslandi.

Dómurinn tekur ekki á efnishlið krafna Rawlinson & Hunter. Ef áfrýjun Kaupþings gengur eftir munu málaferli um efnishlið krafnanna fyrir enskum dómstólum falla niður.

Kröfur Rawlinson & Hunter í þessum málum endurspegla að stórum hluta sambærilegar kröfur sem nú þegar eru til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeim kröfum var hafnað af slitastjórn Kaupþings í mars 2010.

Samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum og lögum um fjármálafyrirtæki skal ágreiningur um réttmæti og upphæð krafna gegn íslensku fjármálafyrirtæki í slitameðferð leiddur til lykta af íslenskum dómstólum.

Þann 10. febrúar 2011 úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að málarekstri á Íslandi um kröfurnar skyldi framhaldið án tillits til málaferla í Englandi.

Gangi dómur í Englandi um efnishlið krafna Rawlinson & Hunter þá hefur slíkur dómur ekki bein áhrif á Íslandi né verður bindandi fyrir íslenska dómstóla. Íslenskir dómstólar munu kveða upp úrskurð óháð niðurstöðu annarra dómstóla um hvort kröfur á hendur Kaupþingi séu réttmætar eða ekki. 

„Dómstóllinn í Englandi ályktaði ekki um réttmæti krafna Rawlinson & Hunter. Í raun er þetta einungis úrskurður um formhlið málsins. Efnislega eru kröfur Rawlinson & Hunter afar veikar og þær eru nú þegar til meðferðar fyrir íslenskum dómstólum,“ segir í yfirlýsingu frá Weil, Gotshal & Manges LLP, lögfræðilegum ráðgjafa Kaupþings






Fleiri fréttir

Sjá meira


×