Viðskipti innlent

Segir Vilhjálm fara með fleipur

Katrín Júlíusdóttir sakar framkvæmdastjóra SA um að fara með fleipur. Mynd/ Anton.
Katrín Júlíusdóttir sakar framkvæmdastjóra SA um að fara með fleipur. Mynd/ Anton.
Iðnaðarráðherra segir framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, fara með fleipur með yfirlýsingum sínum um framkvæmdir í Helguvík. Hún segir pólitískan vilja beggja vegna borðsins í ríkisstjórninni um að verkefnið verði klárað.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík og tilheyrandi orkuframkvæmdir myndu skipta sköpum fyrir atvinnulífið á Íslandi. Hann segir ríkisstjórnina á móti verkefninu og á sama tíma boða skattahækkanir upp á tólf til fimmtán milljarða króna.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segir Vilhjálm fara með rangt mál. Ekki sé ríkisstjórninni að kenna að Helguvíkurverkefnið sé ekki komið á fullt og það viti Vilhjálmur vel. „Og ég skil ekki alveg hvað þessi blekkingarleikur á að þýða vegna þess að staðreyndin er sú að ekkert stendur upp á stjórnvöld í þessu máli. Við höfum lokið fjárfestingasamningi og öðru sem upp á okkur stendur beint - og það fyrir þó nokkru síðan,“ segir Katrín.  

Katrín segir staðreyndina vera þá að Norðurál hafi ákveðið að stofna til viðskiptasambands vð HS Orku með því að stefna þeim fyrir gerðardómi í Svíþjóð. Það valdí því að verkefnið sé að tefjast núna. „Og það er mjög mikilvægt að menn eins og Vilhjálmur Egilsson komi niður á jörðina til okkar hinna og horfist í augu við raunveruleikann í stað þess að leika þessa leiki,“ segir Katrín. Það sé einungis þegar menn horfist í augu við raunverulega stöðu mála að hægt sé að leysa úr henni.

Katrín segir að verkefnið sé búið að fá pólitískan stuðning í gegnum fjárfestingasamning sem fékk samþykkt á Alþingi. Ekkert á borði ríkisstjórnarinnar geti stoppað þetta verkefni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×