Skoðun

Kynleg kynjuð fjárlagagerð

Þórveig Þormóðsdóttir skrifar
Í samstarfsyfirlýsingu sinni 2009 lagði ríkisstjórn Íslands mikla áherslu á jafnrétti kynjanna. Meðal þess sem átti að hafa áhrif á útgjaldaramma fjárlaga var verndun starfa og kynjajafnrétti. Einnig átti að hafa kynjaða hagstjórn að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórnun.

Fjárlögin frá efnahagshruni hafa verið fjárlög niðurskurðar. Snemma varð ljóst að sú atvinnustefna sem boðuð var myndi koma harðar niður á konum en körlum. Í júní 2009 sendi jafnréttisnefnd BSRB frá sér ályktun þar sem nefndin hafnaði atvinnustefnu á kostnað kvenna. Ályktunin fól í sér varnaðarorð og tilmæli til ríkisstjórnarinnar og samningsaðila á vinnumarkaði um að standa vörð um velferðarkerfið.

Ástæðan fyrir ályktuninni var sú að starfsfólk innan velferðarkerfisins er í yfirgnæfandi meirihluta konur og samdráttur þar bitnar því harkalega á kvennastéttum. Í ályktuninni segir enn fremur að mikilvægt sé að stjórnvöld grípi til atvinnuskapandi aðgerða. Atburðarásin mætti hins vegar ekki verða sú að kvennastéttum sé ýtt út af vinnumarkaði við fjármögnun verkefna til að skapa ný störf fyrir karla. Sú hefur því miður orðið raunin.

Svar velferðarráðherra við fyrirspurn á Alþingi í síðastliðinni viku um fækkun starfa á heilbrigðisstofnunum sýnir að þörf er á frekari áminningu um þetta efni. Því miður er raunin sú að þegar höggvið er að rótum velferðarkerfisins bitnar það á störfum kvenna. Í svari ráðherra kom fram að 92 konur muni missa störf sín alfarið vegna niðurskurðar í fjárlögum 2011 og 15 karlar. Þá muni 75,6 stöðugildi kvenna sæta skerðingu á starfshlutfalli á móti 11,1 stöðugildi karla.

Niðurskurður í velferðarkerfinu gengur því þvert gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Uppsagnir af þessu tagi koma verst niður á láglaunuðum kvennastéttum og verður að efast um heildarsparnað fyrir ríkissjóð, enda ljóst að þessar konur fara úr atvinnu hjá ríkinu yfir í að fá atvinnuleysisbætur frá Atvinnuleysistryggingarsjóði.

Velferðarkerfið naut ekki góðs af góðærinu, það bólgnaði ekki út. Það er því ljóst að þar er ekki af miklu að taka til niðurskurðar. Þörfin fyrir gott velferðarkerfi hefur heldur aldrei verið meiri. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk njóti velferðarkerfisins óháð efnahag og aðstæðum, ekki síst í því ástandi sem nú ríkir. Að grípa til uppsagna þar, með tilheyrandi lokunum, gengur því þvert á markmið ríkisstjórnar um samþættingu jafnréttissjónarmiða við almenna fjárlagagerð. Þar er frekar kynleg hagstjórn og fjárlagagerð á ferð.

 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.