Viðskipti innlent

Ísland með hæsta hlutfall lágmarkslauna af meðallaunum

Ef litið er á lágmarkslaun sem hlutfall af meðallaunum á vinnumarkaði hjá þeim ríkjum Evrópu, sem eru með skuldbindandi ákvæði um lágmarkslaun, er hlutfallið hæst á Íslandi um 55%, en þar á eftir koma Frakkland, Lúxemborg, Malta og Grikkland með ríflega 45%.

Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi ASÍ.  Þar segir að forvitnilegt sé að skoða hver umrædd lágmarkslaun eru í hlutfalli af meðaltekju í viðkomandi landi.  Slíkt segir ýmislegt um velvilja og skilning millitekjuhópanna fyrir því að tryggja að sá hópur sem býr við lægstu launin sé ekki einangraður og afskiptur.

Hefur þetta einnig verið talin ágætur mælikvarði á styrkleika verkalýðshreyfingarinnar og notar World Economic Forum þetta sem mælikvarða um ósveigjanleika á vinnumarkaði sem talið er að hafi neikvæð áhrif á stöðu landa í samkeppnismálum.

Ef litið er á lágmarkslaun sem hlutfall af meðallaunum á vinnumarkaði hjá þeim ríkjum Evrópu, sem eru með skuldbindandi ákvæði um lágmarkslaun, er hlutfallið hæst á Íslandi um 55%, en þar á eftir koma Frakkland, Lúxemborg, Malta og Grikkland með ríflega 45%. Á lægri endanum eru lönd eins og Tékkland, Rúmenía og Bandaríkin, þar sem hlutfall lægstu launa af meðallaunum eru undir 35%.

Þessi greining undirstrikar ágætlega að staða lægstu launa hér á landi er tilkomin vegna óábyrgrar efnahagsstefnu stjórnvalda á árunum 2004-2008, sem leiddi til hruns íslensku krónunnar, en ekki vegna þess að verkalýðshreyfingin hafi ekki haft hagsmuni lágtekjufólks í fyrirrúmi með miklum stuðningi stóru millitekjuhópanna, að því er segir í fréttabréfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×