Viðskipti innlent

Microsoft lækkar tölvukostnaðinn hjá skólum landsins

Microsoft kynnti í dag nýtt fyrirkomulag á talningu hugbúnaðarleyfa í skólum sem mun þýða verulegt hagræði fyrir menntastofnanir um allan heim, þar á meðal hér á landi. Breytingin felst í því að í stað þess að telja þær tölvur sem notaðar eru innan hvers skóla og miða hugbúnaðarleyfafjölda við það er fjöldi hugbúnaðarleyfa miðaður við starfsmannafjölda skólans.

Í tilkynningu segir að svo til allir íslenskir skólar eru með samninga við Microsoft um notkun Windows-stýrikerfa og Office-skrifstofuhugbúnaðar auk þess sem margir nýta fleiri lausnir frá Microsoft við rekstur sinn.

Kostnaður skólanna við hugbúnaðarleyfi Microsoft mun því lækka umtalsvert í flestum tilvikum. Lækkunin verður mismunandi milli skóla en miðað við áætlanir Microsoft Íslandi verður ekki óalgengt að kostnaðarlækkun verði á bilinu 20 - 50% í skólum hér á landi.

Staða Microsoft-samninga íslenskra skóla er nokkuð mismunandi, en stór hluti skólanna er þó í þeirri stöðu að tvö ár eru nú liðin af þriggja ára samningi. Microsoft Íslandi hefur ákveðið að bjóða íslenskum skólum sem eru í þessari stöðu að skipta nú þegar yfir í nýja hugbúnaðarleyfafyrirkomulagið svo þeir geti strax notið hagræðis af breytingunni.

„Við erum mjög ánægð með að geta boðið íslenskum skólum að draga úr rekstrarkostnaði sínum með þessum hætti, enda ekki vanþörf á í núverandi efnahagsástandi. Microsoft kemur með þessari umfangsmiklu kerfisbreytingu á heimsvísu til móts við starfsemi menntastofnana og við teljum mjög mikilvægt að skólar hér á landi geti strax notið ávinningsins jafnvel þótt ár sé eftir af núverandi samningi,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×