Viðskipti innlent

230 milljarðar frá ríkinu í endurreisn bankakerfisins

Kostnaður ríkisins við að endurreisa fjármálafyrirtæki og tryggingafélög á síðustu tveimur árum stefnir í að fara í 230 milljarða króna. Þá eru ekki talið með 192 milljarða króna tjón vegna Seðlabankans.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fékk þau svör frá fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, á Alþingi í gær, við fyrirspurn um kostnað ríkisins vegna fjármálafyrirtækjanna, að stærsta einstaka fjárframlagið væri fjármögnun Landsbankans upp á 122 milljarða króna, og að fjármögnun stóru bankanna þriggja með víkjandi lánum losaði 200 milljarða. Áætlun um sparisjóðina gengi út á um 20 milljarða en aðrar tölur væru lægri. Þar munaði mestu um tryggingafélagið Sjóvá upp á 11,4 milljarða.

Steingrímur sagði að menn væru enn langt undir þeirri upphaflegu áætlun sem gerði ráð fyrir að um 385 milljarða króna gætu farið í það hjá ríkinu að endurfjármagna bankakerfið.

Steingrímur tók þó fram að tjón vegna Seðlabankans væri ekki inni í þessum tölum, "..fórnarkostnaður Seðlabankans vegna skuldabréfaviðskiptanna," sem hann sagði að yrði væntanlega stærsti reikningurinn. Þar hafi 192 milljarðar króna verið afskrifaðar í ríkisreikningi árið 2008. "Og það er alveg ljóst að þá peningana fáum við ekki til baka."

Varðandi viðskiptabankana og sparisjóðina sagði Steingrímur að heildartalan vegna þeirra væri einhverjum tugum milljarða fyrir ofan 200 milljarðana. "En að langstærstu leyti standa þar eignir á móti og ég tel ágætar líkur á að þær eignir skili sér að fullu," sagði fjármálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×