Viðskipti innlent

Vodafone hækkar farsíma- og heimasímagjöld

Breytingar verða á verðskrá Vodafone þann 1. apríl nk.  Upphafsgjöld í farsíma og heimasíma munu hækka en mánaðargjöld á almennum þjónustuleiðum fyrir einstaklinga munu ekki breytast svo dæmi séu tekin.

Fjallað er um málið á vefsíðu Vofafone. Þar segir að um er að ræða alhliða endurskoðun á verðskrá, sem ætlað er að endurspegla betur kostnað við rekstur ólíkra þjónustuleiða. Þannig lækkar verð á sumum þjónustuleiðum, á meðan verð á öðrum hækkar eða stendur í stað.

Leiga á myndlyklum frá Vodafone lækkar um 31%, úr 797 kr. í 549 kr., en samhliða breytingunni fellur niður afsláttur sem viðskiptavinir áskriftarstöðva - t.d. Stöðvar 2 og Skjás Eins - hafa notið. Mánaðargjöld á almennum þjónustuleiðum fyrir einstaklinga munu ekki breytast, en upphafsgjald í farsíma og heimasíma mun hækka um 0,3 krónur.

Mánaðargjald eldri þjónustuleiða mun hækka, en mismikið eftir þjónustuleið. Ítarlegar upplýsingar um breytingar á einstökum þjónustuleiðum er að finna á vefsíðu Vodafone. Viðskiptavinum sem nýta gamlar þjónustuleiðir er bent á, að nýrri þjónustuleiðir eru að öllu jöfnu hagkvæmari kostur.

Kostnaður við rekstur Vodafone hefur aukist nokkuð á undanförnum árum, án þess að honum hafi verið ýtt yfir á neytendur. Þar má bæði nefna hækkun á ýmsum aðföngum og sköttum. Þvert á móti hefur Vodafone boðið hagstæðari þjónustuleiðir en áður með miklum ávinningi. Að meðaltali hefur því kostnaður viðskiptavina við símaþjónustu dregist verulega saman.

Þannig hefur kostnaður viðskiptavina Vodafone með farsíma áskrift að meðaltali lækkað um 11% frá ársbyrjun 2008, þrátt fyrir að notkunin hafi aukist. Kostnaður viðskiptavina með farsíma í frelsi hefur lækkað um 23% og af heimasímaþjónustu um 33%. Í síðastnefnda tilvikinu hefur notkunin þó dregist saman en ekki aukist, þar eð hún hefur færst yfir í farsímann, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×