Innlent

Kópavogsbær fellst ekki á rökstuðning FME

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðríður Arnardóttir formaður bæjarráðs.
Guðríður Arnardóttir formaður bæjarráðs.
Bæjarráð Kópavogs fellst ekki á rökstuðning Fjármálaeftirlitsins um staðsetningu nýs húsnæðis stofnunarinnar og telur hann ómálefnalegan. Þetta var bókað á fundi bæjarráðs í gær. Bæjarráð ætlar að fylgja málinu eftir og óskar eftir því að FME fresti ákvörðun um leigu á nýju húsnæði.

Ríkiskaup auglýstu nýverið eftir 2000 fermetra húsnæði undir starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Í auglýsingunni er það skilyrði sett fyrir húsnæðinu að það sé staðsett miðsvæðis í Reykjavík, nánar tiltekið í póstnúmerum 101 til 108.

Bæjarráð Kópavogs lýsti furðu sinni á auglýsingunni þar  sem takmarkanir á staðsetningu útilokuðu önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en Reykjavík til að bjóða fram húsnæði. Fól það bæjarlögmanni að kanna lögmæti auglýsingarinnar.

Bæjarlögmaður óskaði eftir skýringum frá FME og barst svar í lok febrúar. Þar segir meðal annars að FME telji nauðsynlegt að stofnunin sé í nálægð við helstu stjórnsýslustofnanir og stærstu eftirlitsskyldu aðilana. „Af þeim sökum var í auglýsingu um nýtt húsnæði undir starfsemi stofnunarinnar sett það skilyrði að húsnæðið væri staðsett innan þessara tilteknu marka," segir meðal annars í rökstuðningi FME.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×