Skoðun

Til hamingju með daginn!

Ragna Sara Jónsdóttir skrifar
Í dag 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í ár er þessum degi fagnað í 100. skipti og eru hátíðahöld og baráttugöngur haldnar víða um heim í tilefni dagsins. Það óréttlæti og þau höft sem konur búa við víða um heim eru með öllu óásættanleg. En dropinn holar steininn og baráttan skilar árangri.

Árið 2010 var mikilvægt fyrir jafnréttisbaráttu heimsins. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna runnu fjórar stofnanir sem vinna að réttindum kvenna saman í eina og var stofnunin formlega sett á fót 24. febrúar síðastliðinn. Með sameiningunni varð UNIFEM að UN WOMEN og gefa breytingar þessar jafnréttisbaráttu og frelsisbaráttu kvenna um allan heim aukið vægi.

Það er von okkar að stofnun UN Women verði til heilla fyrir þær milljónir kvenna sem lifa við óásættanlegar aðstæður, mannréttindabrot, höft og ofbeldi. Með UN Women er aukinn kraftur settur í baráttu fyrir því að Þúsaldarmarkmið um þróun, sem tengjast konum, náist fyrir árið 2015. Þátttaka kvenna í atvinnulífi og frumkvöðlastarfsemi er efld, og barátta gegn kynbundnu ofbeldi einnig.

Landsnefnd UNIFEM á Íslandi, nú Landsnefnd UN Women á Íslandi tekur fullan þátt í þeim áherslubreytingum sem eiga sér stað innan Sameinuðu þjóðanna og setur enn meiri kraft í starfsemi félagsins hér heima. Íslendingar sýna þessari baráttu mikinn skilning og aldrei hafa fleiri stutt samtökin hérlendis en einmitt nú í ár. Yfir 1100 einstaklingar hafa gengið í Systralag UN Women og styrkja „systur" sínar í fjölmörgum löndum heims með föstum mánaðarlegum greiðslum.

Íslensk fyrirtæki hafa einnig tekið skref sem miða að því að styrkja jafnréttismál innan sinna eigin veggja. Þrjú íslensk fyrirtæki voru stofnaðilar að Jafnréttissáttmála UN Women sem landsnefndin ýtti úr vör í nóvember 2010 og listi fyrirtækja sem undirrita sáttmálann hérlendis lengist sífellt.

Við hjá UN Women á Íslandi trúum því að nýju landslagi fylgi aukin tækifæri sem munu skila sér í betri lífsskilyrðum kvenna víða um heim. Íslenskri landsnefnd UN Women þykir viðeigandi að fagna þessum sögulega viðburði á alþjóðlegum degi kvenna. Af þessu tilefni höfum við fengið listakonuna Kitty Von-Sometime og gjörningahópinn WEIRD GIRLS PROJECT til liðs við okkur. Við bjóðum öllum að koma og fagna með okkur í dag klukkan 17.15 að Laugavegi 19 og líta á afrakstur þeirrar samvinnu.

 






Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×