Skoðun

Hættuleg þróun

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
Ef ekkert stendur í lögum um að dómarar megi ekki þiggja laun frá öðrum en ríkinu má þá greiða þeim fyrir dómsniðurstöðu? Ef ekkert stendur í lögum um að alþingismenn megi ekki þiggja laun fyrir pólitísk störf sín frá öðrum en ríkinu má þá greiða þeim fyrir að vinna að tilteknu þingmáli eða lagasetningu?  Ef ekki er tekið fram í skipulagslögum að ekki megi greiða sveitarstjórn fyrir stefnu í aðalskipulagi má þá greiða þeim fyrir ákveðna stefnu varðandi landnotkun?  Má þá líka greiða sveitarstjórninni fyrir að skipta um skoðun varðandi landnotkunarstefnu?

 

Siðvitund þjóðar

Svari nú hver fyrir sig. Svörin í heildina eru ekki spurning um krónur og aura heldur um siðvitund þjóðarinnar sem ekki verður fest í lög. Það eru nefnlilega til óskrifuð lög og reglur sem eru ekki síður mikilvæg í hverju þjóðfélagi en skrifuðu lögin. Það á meðal annars við um hvernig við umgöngust hvort annað og landið okkar án þess að það sé metið til fjár eða skrifað í lög. Þessi kjarni, óskrifuðu lögin og reglurnar sem eru siðvitund þjóðarinnar, virðist vera á hröðu undanhaldi. Það kemur meðal annars glöggt fram í stórauknu álagi á dómskerfið þar sem skrifuð lög og reglur ráða för. Í dag er allt metið til fjár og það sem ekki kostar peninga, ekki er hægt að kaupa eða selja eða græða á virðist einskis virði og dómstólar úrskurða. Þarf ekki líka að skerpa á siðvitundinni, til dæmis til að koma í veg fyrir að menn ræni banka meðvitað innanfrá og láti þjóðina borga, án þess að um það gildi lög og reglur? Þannig væri hægt að létta verulega á dómskerfinu.

 

Dómur um siðferði

Hæstiréttur vitnar í 34. og 35. gr. skipulags- og byggingarlaga í niðustöðu sinni varðandi aðalskipulag Flóahrepps og segir að þar sé ekkert sem leggi beinlíns bann við að sveitarfélög láti aðra en Skipulagsstofnun greiða fyrir aðalskipulag. Þessi lagatúlkun hafði afgerandi áhrif á dómsniðurstöðuna þar sem umhverfisráðherra var gert að staðfesta aðalskipulagið þó að einn stærsti hagsmunaaðilinn hafi borgað fyrir gerð þess. Ég tel að með þessari lagatúlkun sem endurspeglast í dómsniðurstöðunni  hafi Hæstiréttur dæmt siðvitund þjóðarinnar og störf stjórnmálamanna á nýtt og lægra plan. Þó er kannski miklu alvarlegra að dómsniðurstaðan er byggð á því sem ekki stendur í lögunum. Ef dómstólar eru farnir að dæma eftir því sem ekki stendur í lögunum sem þeir dæma eftir þá er mikil vá fyrir dyrum.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×