Viðskipti innlent

Tekjubil minnkaði á Íslandi á síðasta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tekjubil á Íslandi minnkaði frá árinu 2009 til ársins 2010. Tekjubilið hafði hins vegar breikkað árin þar á undan. Hlutfall Íslendinga undir lágtekjumörkum hefur haldist nær óbreytt frá fyrstu lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2004. Þetta sést þegar horft er til svokallaðs Gini-stuðuls og fimmtungastuðuls úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.

Gini-stuðullinn sýnir dreifingu ráðstöfunartekna meðal landsmanna á einkaheimilum. Hann var 25,7 árið 2010 en 29,6 árið áður. Stuðullinn væri 100 ef einn maður væri með allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur.

Fimmtungastuðullinn gefur til kynna að þeir sem tilheyrðu tekjuhæsta fimmtungnum í lífskjararannsókninni 2010 höfðu 3,6 sinnum hærri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en þeir sem tilheyrðu tekjulægsta fimmtungnum. Fimmtungastuðullinn var 4,2 árið 2009.

Lágtekjuhlutfall var 9,8% á Íslandi árið 2010 og hefur lítið breyst frá því mælingar hófust. Lágtekjuhlutfall er skilgreint sem 60% af ráðstöfunartekjum á neyslueiningu en þær byggjast á ráðstöfunartekjum heimila og hversu margir þurfa að lifa af þeim.

Af 29 Evrópuþjóðum var Ísland í 17. sæti þegar þjóðunum er raðað frá þeirri sem var með lægsta Gini-stuðulinn til þeirrar sem hafði hæsta stuðulinn. Tölurnar fyrir evrópska samanburðinn eru frá 2009. Ísland var í 12. til 14. sæti yfir Evrópuþjóðirnar 29 þegar fimmtungastuðlinum er raðað frá þeim lægsta til þess hæsta. Fram til 2009 hækkaði Gini-stuðullinn og fimmtungastuðullinn meira hjá Íslandi en flestum öðrum Evrópuþjóðum.

Af 29 Evrópuþjóðum var Ísland með næst lægsta lágtekjuhlutfallið á eftir Tékklandi. Þróun lágtekjuhlutfalls er ekki á sama veg og þróun fimmtunga- og Gini-stuðulsins þar sem Ísland hefur stöðugt verið ein þeirra þjóða sem eru með lægsta lágtekjuhlutfallið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×