Erlent

Fífldjarfir ræningjar fyrir rétti

Óli Tynes skrifar

Tíu karlmenn sem nú eru fyrir rétti í Stokkhólmi neita allir að hafa tekið þátt í einhverju bíræfnasta ráni sem þar hefur verið framið.

Lögreglan þykist þó hafa næg sönnunargögn undir höndum, meðal annars DNA sýni.

Lögreglan hefur einnig myndband úr öryggismyndavélum sem sýna ræningjana á vettvangi.

Hvað sem annars má um ræningjana segja var ránið þaulskipulagt. Það var í september árið 2009 sem þrír svartklæddir menn komu þjótandi á þyrlu og brutu sér leið inn í peningageymsluí Stokkhólmi í gegnum þakið.

Þeir höfðu með sér sprengiefni, stiga, vélsagir, slípirokka og glussaklippur.

Skelfingu lostið starfsfólkið leitaði sér skjóls í öryggisherbergi og hélt fyrir eyrun meðan sprengingarnar skóku húsið.

Ræningjarnir komust nokkuð auðveldlega inn í peningageymsluna og byrjuðu að hlaða seðlabúntum um borð í þyrluna.

Þeir stálu næstum 40 milljónum sænskra króna sem gerir um 660 milljónir íslenskra króna. Síðan forðuðu þeir sér í þyrlunni.

Lögreglan gat ekki notað sínar eigin þyrlur til þess að helta hana því pökkum sem litu út eins og sprengiefni hafði verið komið fyrir á þyrlupalli hennar.

Ræningjarnir komust því undan, en hafa síðan verið handteknir einn af öðrum. Það er að segja ef þeir tíu sem eru fyrir rétti eru sekir um ránið.

Ránsfengurinn hefur ekki fundist ennþá og lögreglan telur að enn gangi vitorðsmenn lausir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×