Innlent

Oddný Sturludóttir: Það er ekki verið að stela jólunum

Oddný Sturludóttir.
Oddný Sturludóttir.

Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir á bloggsíðu sinni að Besti flokkurinn og Samfylkingin séu ekki að ræna jólunum. Þetta skrifar hún vegna umræðunnar um drög að leikreglum um samskipti skóla og trúfélaga.

Orðrétt skrifar Oddný á bloggið sitt:

„Það er enginn að eyðileggja jólin. Í drögunum er þess sérstaklega getið að ekki er ætlunin með þeim að hrófla við hefðbundnum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla. Litlu-jólin, jólaföndrið, jólaböllin og annar sígildur undirbúningur jóla verður eftir sem áður veruleiki reykvískra leik- og grunnskólabarna."

Þá áréttar Oddný að það sé ekki verið að leggja niður trúarbragðafræðslu.

„Í drögunum er hvergi vikið einu orði að trúarbragða- eða kristinfræðslu. Sú fræðsla fylgir ákvæðum aðalnámskrár hverju sinni og reykvískir skólar munu því hér eftir sem hingað til fræða börn um ólík trúarbrögð, kristna trú sem og aðra," segir Oddný á bloggi sínu.

Hún segir að í drögunum gerir mannréttindaráð tilraun til að skerpa á hlutverki skólans annars vegar og kirkjunnar hins vegar. Þar kemur fram að síðustu ár hafi það færst í aukana að prestar komi í reglulegar heimsóknir í skóla, núningur hafi einnig komið upp vegna fermingarfræðslu á skólatíma og brunnið hafi við að starf á vegum kirkjunnar væri orðið óeðlilega samtvinnað skólastarfinu.

„Það samræmist hvorki mannréttindastefnu borgarinnar né hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sem kveður á um að taka beri tillit til allra barna, óháð atgervi þeirra eða trúarskoðunum," skrifar Oddný á blogginu sínu.

Fyrir áhugasama má lesa pistil Oddnýjar í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×