Skoðun

Landið tekur að rísa! - Grein 4

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Í fyrri greinum hefur verið farið yfir orsakir og afleiðingar bankahrunsins, þann árangur sem þegar hefur náðst í glímunni við kreppuna og staða þjóðarbúsins verið greind. Um leið og því ber að fagna sem áunnist hefur er engin ástæða til að draga dul á að mikil og erfið verkefni bíða úrlausnar. Nú verður farið yfir nokkur þau helstu hér innanlands. Þau sem bíða okkar í samskiptum við erlenda aðila verða reifuð síðar.



Aðlögun í ríkisfjármálumRíkisfjármálin eru tvímælalaust eitt erfiðasta verkefnið sem framundan er. Eins og áður hefur komið fram náðist strax á árinu 2009 umtalsverður árangur í þeim efnum. Skilningur og samstarfsvilji hefur ríkt hvað það varðar að hagræða og spara í opinberum rekstri. Áætlaður rekstrarhalli ríkissjóðs á yfirstandandi ári er rétt undir 100 milljörðum króna. Í fjárlögum næsta árs þarf að ná honum umtalsvert niður þannig að svokallaður frumjöfnuður, þ.e. rekstur ríkisins án fjármagnskostnaðar verði jákvæður á næsta ári. Til þess verður ráðist í umfangsmiklar aðlögunaraðgerðir upp á 43 milljarða króna sem í grófum dráttum skiptist þannig að dregið verður úr útgjöldum um 32 milljarða frá því sem ella hefði orðið og tekna aflað að auki með sértækum aðgerðum upp á 11 milljarða.

Þessar aðgerðir verða erfiðar, jafnvel beinlínis sársaukafullar, en þær eru því miður óumflýjanlegar. Góðu fréttirnar eru þær að með þeim verður hið erfiðasta afstaðið. Árin 2012 og 2013 verða auðveldari viðfangs og umfang hagræðingaraðgerða mun minna, gangi áætlanir um efnahagsbata í grófum dráttum eftir.

 

SamstarfsáætlunAnnað mikilvægt úrlausnarefni eru kjaramálin. Undir lok árs verður staðan sú að svo til allir kjarasamningar á almennum jafnt sem opinberum vinnumarkaði verða lausir, þ.e.a.s. hafi ekki þegar samist fyrir þann tíma. Miklu skiptir hvernig til tekst. Aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélögin, bændasamtökin og ríkið gerðu fyrir rúmu ári svonefndan stöðugleikasáttmála. Mjög hefur verið í tísku að tala þetta samstarf niður en færri hafa rætt hversu óendanlega mikilvægt og í raun lífsnauðsynlegt það er okkur að sameina kraftana á þessum erfiðu tímum.

Undirritaður ber þá von í brjósti að við verðum aftur jafngæfusöm og einhvers konar ný samstarfsáætlun verði í gildi næstu misseri þar sem stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og fleiri heildarsamtök vinna á sameiginlegum vettvangi að brýnustu viðfangsefnum á sviði efnahags- og kjaramála, í baráttunni við atvinnuleysið o.s.frv. Ábyrgð þeirra sem skærust úr leik við núverandi aðstæður yrði mikil.

Það er jafnframt mikilvægt að leysa deilur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar einkum hvað varðar meðferð veiði- eða afnotaréttinda á sviði sjávarauðlinda. Áratuga illdeilur um málið hafa engu skilað og ítrekað komið fram að þjóðin er ósátt við fyrirkomulagið. Sjávarútvegurinn er einnig skuldugur úr hófi fram að verulegu leyti vegna kvótakaupa á uppsprengdu verði þó fleira komi til. Slíkt ástand er óviðunandi til lengdar. Sú ábyrgð hvílir sameiginlega á herðum stjórnvalda og hagsmunaaðila að finna ásættanlega lausn. Brýnt er að sá sáttafarvegur sem málið er nú í leiði til farsællar niðurstöðu, þar sem sameign þjóðarinnar á auðlindinni er fest í sessi um leið og sjávarútvegi er skapað traust rekstrarumhverfi.

 

Efnahagslegt vægi gjaldeyrislánaMeð dómi Hæstaréttar frá því snemmsumars liggur nú fyrir að einhver hluti svonefndra myntkörfulána eru ólögmæt eða óskuldbindandi. Það að umfangsmikil lánastarfsemi sem hér var ástunduð um langt árabil skuli nú reynast á ólögmætum grunni er mikill áfellisdómur yfir fjármálakerfinu og eftirlitinu.

Þeir sem tóku slík lán og önnur sambærileg sem dæmd kunna að verða ólögmæt munu njóta lækkunar höfuðstóls en óvissa er enn uppi varðandi það hvernig með lánin skuli farið að öðru leyti. Lækkun höfuðstóls lánanna mun hafa jákvæð áhrif á skuldastöðu margra, en áhrifin á fjármálakerfið og fjármálastöðugleika eru óviss. Endanleg niðurstaða, bæði um umfang málsins og vaxtaþáttinn, mun hafa geysimikið efnahagslegt vægi eins og fram hefur komið.

 

Eignarhald og arður af auðlindumTil viðbótar við umdeild kaup kanadíska fyrirtækisins Magma í gegnum sænskt skúffufyrirtæki á HS Orku, sem nú sæta rannsókn, bíður mikil vinna við að endurskoða og styrkja lagaumgjörð um auðlindamál með það að markmiði að treysta opinbert eignarhald á auðlindunum í sessi og forræði okkar Íslendinga sjálfra og þar með arðinn af auðlindanýtingunni.

Það er eindregin skoðun undirritaðs að vaxandi arður af sameiginlegum auðlindum geti orðið og eigi að verða vaxandi hluti ríkistekna á komandi árum og áratugum. Þó ekki sé nema horft til þróunar raforkuverðs í heiminum, svo ekki sé minnst á græna orku, þá skiptir sköpum að við sjálf innleysum þann tugmilljarða aukna arð sem hægt á að vera að sækja til núverandi orkuvinnslu svo ekki sé talað um það sem við kann að bætast. Núverandi ríkisstjórn hefur einsett sér það markmið til að svo verði.

 

2011 lýkur samstarfi við AGSSamstarfsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er nú komin á rekspöl á nýjan leik og verði ekki frekari tafir lýkur henni síðsumars 2011. Vera AGS hér er eðlilega umdeild og væntanlega finnast fáir landar sem ekki hefðu mikið viljað til vinna að til hennar hefði ekki þurft að koma. Úr því sem komið er skiptir mestu að málinu ljúki með farsælum hætti og Ísland geti sem fyrst staðið algerlega á eigin fótum án slíkrar aðstoðar og íhlutunar.



Bætum allan ríkisreksturinnSameining ráðuneyta og stofnana og endurskipulagning opinbers rekstrar hljóta að flokkast meðal brýnustu verkefna við núverandi aðstæður. Áformaðar eru viðamiklar og áframhaldandi breytingar í opinberum rekstri í því skyni að hagræða og spara eins og kostur er, en einnig til að unnt verði betur að verja nauðsynlega grunnþjónustu og störf. Liður í þessu eru áform um að sameina og fækka ráðuneytum sem greiðir götu þess að stofnanir er undir þau heyra verði sameinaðar. Til þessa standa ekki aðeins sparnaðarrök heldur færir skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis okkur einnig heim sanninn um að meðal helstu veikleika í stjórnkerfi okkar eru of margar, dreifðar og veikburða einingar.



Glíman við atvinnuleysiðÞó svo að atvinnuleysi hafi ekki orðið eins mikið og spár gerðu ráð fyrir hlýtur glíman við það að vera forgangsverkefni. Viðgangur hins almenna atvinnulífs skiptir þar mestu þó oft sé talað eins og einstakar stórframkvæmdir séu það eina sem máli skiptir.

Stöðugleiki, lækkandi vextir og verðbólga, ásamt öllum þeim hvetjandi og örvandi aðgerðum sem viðráðanlegt er að ráðast í eru sjálfsagt framlag stjórnvalda. Á þeim grunni þarf síðan að skapast andrúmsloft aukinnar bjartsýni og trúar á framtíðina.

Efnahagsástand er huglægt ekkert síður en efnislegt og um leið og tiltrúin fer aftur vaxandi munu miklir kraftar leysast úr læðingi. Tækifærin eru næg og að þeim verður betur vikið síðar.

 


Tengdar fréttir

Landið tekur að rísa! - Grein 3

Almenningur þekkir vel af eigin raun hversu mikið högg íslenska hagkerfið hlaut við fall bankanna síðla árs 2008. Stærð þeirra og umsvif ollu því að vandi Íslands varð mun meiri en önnur ríki hafa staðið frammi fyrir af sambærilegum ástæðum. Um orsakir þessa hef ég þegar fjallað í fyrri greinum, en sný mér nú að jákvæðum teiknum sem eru á lofti í íslensku efnahagslífi.

Landið tekur að rísa! - Grein 1

Á annasömum tímum hættir eflaust fleirum en höfundi til að dragast niður í úrlausnarefnin, lokast inni við hið hversdagslega amstur daganna. Vill þá farast fyrir að lögð séu niður amboðin og gengið á sjónarhól mannlífs og atburða, skyggnst um og horft jafnt um öxl sem fram á veginn.




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×