Erlent

Vaxandi andstaða við Chavez

Kona ber á pott í fararbroddi mótmæla í Caracas. Líklega þarf ekki að velkjast í vafa um hvaðan fyrirmyndin að þessu formi mótmæla er fengin.fréttablaðið/AÆ
Kona ber á pott í fararbroddi mótmæla í Caracas. Líklega þarf ekki að velkjast í vafa um hvaðan fyrirmyndin að þessu formi mótmæla er fengin.fréttablaðið/AÆ

Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur átt í vaxandi vandræðum undanfarið. Mótmælum hvers konar hefur fjölgað gegn þessum harða vinstrimanni sem lengst af ellefu ára valdatíð sinni átti miklum vinsældum að fagna meðal landsmanna.

Óánægjuefnin eru mörg: mesta verðbólgan í Suður-Ameríku, æ tíðari rafmagnsleysistímabil, vaxandi ofbeldi í glæpaheiminum og bankahneyksli sem tengist æðstu stjórn landsins.

Í síðustu viku streymdu dag eftir dag þúsundir manna út á götur í borgum landsins til að mótmæla lokun sjónvarpsstöðvarinnar RCTV, sem hafði ekki farið dult með andstöðu sína við forsetann.

Þá sagði Ramon Carrizalez, aðstoðarforseti og varnarmálaráðherra landsins, af sér í vikunni, en sagði ástæður afsagnarinnar reyndar vera persónulegar.

Verðbólgan í landinu er komin upp í 25 prósent þrátt fyrir ströng efnahagshöft og bitnar það illa á almenningi. Gengisfelling í janúar, sem ætlað var að auðvelda ríkinu að standa straum af nýjum útgjöldum, verður líklega til þess að hækka verðlagið enn frekar.

Ofan á allt saman hefur framleiðsla olíuiðnaðarins, sem er undirstaða ríkisútgjaldastefnu forsetans, dregist saman, að hluta til vegna þess að skort hefur á nýjar fjárfestingar í greininni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×