Skoðun

Slítum sambandi

Ari Tryggvason skrifar

Í Kastljósi Sjónvarps þann 1. júní síðastliðinn, ræddu tveir þingmenn viðbrögð vegna árása Ísraela á skipaflota á leið til Gasa með hjálpargögn á alþjóðlegu hafsvæði. Annars vegar var Ögmundur Jónasson, fulltrúi Vinstri grænna og starfandi formaður utanríkismálanefndar, hins vegar, Ragnheiður Eín Ármannsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks og þingmaður utanríkismálanefndar.

Ragnheiður Elín var því miður í allt of kunnuglegu fari Sjálfstæðismanna þegar málefni Ísraels og Palestínu ber á góma. Að kalla Ísrael og Palestínumenn deiluaðila, eins og hún gerði, líkt og um jafningja væri að ræða, er móðgun við hugtakið frelsi og mannréttindi. Palestínumenn beita andófi með afskaplega vanþróuðum vopnum. Þeir eiga rétt á slíku samkvæmt alþjóðalögum, því þeir eru í sjálfsvörn. Ísraelar, með einna öflugasta og tæknilegasta her sem um getur, eru hins vegar árásaraðilinn og brjóta á rétti Palestínumanna, samkvæmt alþjóðalögum. Leggja Sjálfstæðismenn þetta að jöfnu?

Þrátt fyrir vísbendingar um vissa hugarfarsbreytingu hjá einstaka þingmanni Sjálfstæðisflokks, er flokkurinn í fjötrum kjarkleysis og þýlyndis gagnvart nánu sambandi Bandaríkjanna og Ísraels. Flokkurinn þorir ekki að ganga lengra en stjórn Bandaríkjanna gerir í gagnrýni á Ísrael, hvað þá lengra en Sameinuðu þjóðirnar gera. Þetta er því nöturlegra vegna sögulegrar fordæmingar Sjálfstæðismanna á meintri þjónkun vinstri manna við Sovétríkin á tímum kalda stríðsins. Sú þjónkun er hátíð borin saman við hundingjahátt hinna fyrrnefndu gagnvart Bandaríkjunum, landvinningaríki sem varð til með útþenslu, grundvöllur sem því er í blóð borið.

Ég fæ ekki betur séð en visst geðveikisástand ríki við stjórn Ísraels, sem veldur áhyggjum því landið ræður yfir kjarnorkuvopnum. Vissulega er það huggun harmi gegn, að andófs- og friðarstarf eykst í Ísrael og meðal gyðinga úti um allan heim. Engu að síður er staðan mjög alvarleg. Það verður að beita Ísrael viðlíka aðgerðum og gegn S-Afríku á sínum tíma. Ísrael er ríki, grundvallað á kynþáttahyggju. Svo sjúkt er það í sjálfbirgingshætti sínum, að á því verður að taka líkt og gert er gagnvart gerspilltu og ofdekruðu barni. Foreldrarnir, Evrópa og Bandarkíkin, hafa misst öll tök á uppeldinu.

Íslendingar! Sýnum kjark og þor, slítum stjórnmálasambandi við Ísrael. Bíðum ekki eftir öðrum Evrópuríkjum. Bak stóru orða þeirra er lítil innistæða, einungis veik réttlætiskennd þvæld í samvisku- og hagsmunaflækju.




Skoðun

Sjá meira


×