Erlent

Kæfandi reykjarmökkur liggur yfir Moskvuborg

Varla var líft vegna reykmengunar í höfuðborg Rússlands í gær.
fréttablaðið/AP
Varla var líft vegna reykmengunar í höfuðborg Rússlands í gær. fréttablaðið/AP
Skyggni í Moskvuborg mældist ekki nema nokkrir tugir metra í gær vegna reykmengunar frá skógareldunum. Ferðafólki tókst að ná dulúðugum myndum af helstu kennileitum, en stækjan var römm og framkallaði þrálátan hósta.

Reykurinn kemur frá eldunum miklu sem herjað hafa á landið undanfarið. Spáð er kyrru veðri næstu daga í borginni þannig að reykmengunin er ekki á förum.

Heilbrigðisyfirvöld vara fólk við að fara mikið út úr húsi og vera þá með grímur fyrir vitum. Inni í húsunum er fólki ráðlagt að hengja upp vot handklæði til að taka í sig rykið og kæla loftið.

„Það er ekki nokkur leið að sinna vinnunni,“ sagði Mikhail Borodin, tæplega þrítugur Moskvubúi, sem kveikti sér í sígarettu og tók stundarkorn niður reykgrímuna til að geta fengið sér reyk. „Ég veit ekki hvað ríkisstjórnin er að gera, en þeir ættu bara að loka öllu.“

Hitarnir í Rússlandi hafa slegið öll met í sumar. Í næstu viku er spáð allt að 38 stiga hita í Moskvu, þar sem meðalhitinn á þessum árstíma er um 23 gráður.

Í gær brunnu eldar á 500 stöðum í Rússlandi, mest í vestanverðu landinu. Í nágrenni höfuðborgarinnar sást 31 skógareldur og fimmtán kjarreldar.

Stjórnvöld hafa viðurkennt að tíu þúsund manna slökkvilið landsins ráði engan veginn við vandann. Íbúar í mörgum smærri þorpum staðfesta það: eldarnir hafa farið á ógnarhraða yfir þorpin og skilið eftir sig auðn eina.

Í borginni Sarov, sem er töluvert fyrir austan Moskvu, börðust menn við að halda eldunum frá kjarnorkurannsóknarstöð. Í síðustu viku ollu eldarnir miklu tjóni á herflugvelli skammt fyrir utan Moskvu. Allt að 200 flugvélar skemmdust.

Eldarnir hafa orðið meira en fimmtíu manns að bana, meira en tvö þúsund hús eru eyðilögð. Vladimír Pútín forsætisráðherra hefur lofað því að ný hús verði reist fyrir veturinn og hver einstaklingur fái jafnvirði 800 þúsund króna í skaðabætur, sem er nokkuð há upphæð þegar haft er í huga að mánaðarlaun eru að meðaltali rétt innan við hundrað þúsund krónur. gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×