Viðskipti innlent

Lífeyrisaldur hækki í 68 ár

Mannfjöldaspár benda til þess að hlutfall Íslendinga yfir 65 ára muni meira en tvöfaldast á næstu 40 árum. Samtök atvinnulífsins vilja hækka lífeyrisaldur til að sporna við skerðingu lífeyris og hærri iðgjöldum.
Mannfjöldaspár benda til þess að hlutfall Íslendinga yfir 65 ára muni meira en tvöfaldast á næstu 40 árum. Samtök atvinnulífsins vilja hækka lífeyrisaldur til að sporna við skerðingu lífeyris og hærri iðgjöldum. Mynd/Pjetur
Samtök atvinnulífsins (SA) vilja að eftirlaunaaldur hjá lífeyrissjóðum verði hækkaður úr 65 og 67 árum í 68 ár. SA vilja með þessu bregðast við lengri meðalævi Íslendinga sem hafi haft í för með sér lægri lífeyri og hærri iðgjöld.

"Þetta er eitthvað sem þarf virkilega að taka á þegar til framtíðarinnar er horft, og framtíðin kemur innan skamms," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Í flestum löndum Evrópu og raunar víðar hefur mikið verið rætt um hækkun eftirlaunaaldurs síðustu misseri. Í Frakklandi hefur ríkisstjórnin tilkynnt um áætlanir um að hækka eftirlaunaaldur úr 60 árum í 62 ár og á Spáni er unnið að því að hækka hann úr 65 árum í 67 ár. Eins hefur neðri deild þýska þingsins samþykkt að hækka eftirlaunaaldur úr 65 árum í 67 ár auk þess sem leiðtogar repúblikana í Bandaríkjunum hafa lýst yfir vilja til að hækka lífeyrisaldur þar upp í sjötugt. Hækkun hefur einnig mikið verið rædd í Grikklandi og Rússlandi.

Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir ekki víst að þjóðfélagið yrði betur sett ef eldri borgarar væru í meira mæli í vinnu. Hann segir mun meira máli skipta að horfa á hagvöxtinn í landinu, ekki hversu margir séu á vinnumarkaði hverju sinni. Hækkun á lífeyrisaldri gæti haft í för með sér að sparnaður drægist saman sem hefði neikvæð áhrif á fjárfestingu og hagvöxt. Gylfi segir eldri borgara á Íslandi þegar vinna þarft og mikið verk.- mþl, sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×