Skoðun

Líf Magneudóttir: Vinstri græn framtíð

Fyrir sveitastjórnarkosningar upphefst gjarnan sá söngur að allir flokkar séu eins og að stefnumál þeirra séu þau sömu. Sami grautur í mismunandi skálum.

Það má vissulega til sanns vegar færa að margt sé líkt með stefnumálum stjórnmálaflokka á sveitastjórnarstigi. Ástæða fyrir því að stefnumálin virðast vera hin sömu er einföld: Stór hluti verkefna sveitarfélaga er lögbundinn. Þeim er þröngur stakkur sniðinn af löggjafanum.

Af því leiðir hins vegar ekki að það skipti engu máli hver er kosinn. Svo er margt sinnið sem skinnið segir máltækið og víst er það svo að mannfólkið er ólíkt að upplagi. Fólk skipar sér í stjórnmálaflokka eftir lífsskoðunum og áherslum.

Við sem erum í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði sameinumst um félagslegar áherslur, kvenfrelsi og umhverfisvernd. Vinstri græn hafa ekki og munu ekki setja hagsmuni stórtækra verktaka eða hagsmuni hálaunafólks af því að greiða lága skatta, í forgang. Við Vinstri græn forgangsröðum ávallt í þágu barna, í þágu fatlaðra, í þágu efnaminna fólks og atvinnulausra og annarra sem eiga undir högg að sækja.

Vinstri græn hafa réttlæti að leiðarljósi í forgangsröðun verkefna og hafna þröngum sérhagsmunum og yfirdrifinni frjálshyggju. Frá upphafi setti hreyfingin sér reglur um fjárframlög fyrir forvöl og aðra starfsemi. Þannig hafa vinstri græn alltaf getað verið óháð þrýstingi fjármagnseigenda. Það er enda sannfæring flokksins að með auknum jöfnuði, kvenfrelsi og umhverfisvernd skapist hér réttlátt þjóðfélag þar sem við fáum öll jafnt tækifæri að lifa, þroskast og deyja. Vonandi verður vorið Vinstri grænt.




Skoðun

Sjá meira


×