Handbolti

Guðmundur: Gáfum þeim aldrei séns

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Mynd/DIENER/Leena Manhart

Guðmundur Guðmundsson var greinilega mjög létt eftir öruggan sigur Íslands á Rússlandi á EM í handbolta í dag, 38-30.

Eins og tölurnar bera með sér var sigurinn öruggur en Guðmundur missti aldrei einbeitingu og hvatt sína menn áfram allan tímann af hliðarlínunni.

„Við gáfum þeim aldrei séns,“ sagði Guðmundur um frábæra byrjun íslenska liðsins í leiknum. Staðan var orðin 16-6 eftir 25 mínútur.

„Þeir fundu að við vorum mjög einbeittir og við tókum fast á þeim. Því fylgdum við svo eftir þó svo að það hafi verið mjög erfitt að halda fullri einbeitingu allan leikinn.“

Hann sagði sína menn hafa mætt mjög vel undirbúna til leiks.

„Við vissum ekki hvernig þetta yrði í dag og því vorum við búnir að leggja mikla vinnu í okkar undirbúning. Við eyddum miklum tíma í að greina þeirra leik,“ sagði Guðmundur.

„Varnarleikurinn var mjög öflugur í byrjun leiks og mér fannst við ganga mjög vel út í skytturnar þeirra. Við vorum líka búnir að undirbúa okkar sóknarleik mjög vel og mér fannst hann ganga vel eiginlega allan tímann. Við getum því ekki verið annað en ánægðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×