Erlent

Bann við giftingum brýtur í bága við stjórnarskrá

Töluverð bið getur orðið á að endanleg niðurstaða fáist úr bandaríska dómskerfinu.
nordicphotos/AFP
Töluverð bið getur orðið á að endanleg niðurstaða fáist úr bandaríska dómskerfinu. nordicphotos/AFP
Vaughn Walker, dómari í Kaliforníu, felldi úr gildi bann við hjónaböndum samkynhneigðra í Kaliforníuríki. Walker taldi bannið, sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum, brjóta í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Samkynhneigðir og stuðningsmenn hjónabands þeirra fögnuðu dómnum ákaft, en að öllum líkindum verður málinu áfrýjað, fyrst til áfrýjunardómstóls og síðan til Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Hjónabönd samkynhneigðra verða því varla leyfð í Kaliforníu á ný fyrr en úrskurður Hæstaréttar er fenginn, en töluverð bið getur orðið á því.

Samkynhneigðir geta nú gengið í hjónaband í sex ríkjum Bandaríkjanna: Massachusetts, Iowa, Connecticut, Vermont, New Hampshire og Washingtonborg.

Hjónabönd samkynhneigðra urðu lögleg í Kaliforníu í júní 2008 eftir að hæstiréttur ríkisins leyfði þau, en bannið tók gildi 5. nóvember sama ár eftir að það var samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×