Erlent

Forsendan fyrir stríðinu reyndist ekki rétt

Formleg athöfn í Bagdad.
Varaforseti og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna á tímamótum.fréttablaðið/AP
Formleg athöfn í Bagdad. Varaforseti og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna á tímamótum.fréttablaðið/AP

 „Vandinn við þetta stríð, í huga margra Bandaríkjamanna, er að ég held sá, að forsendan sem notuð var til að réttlæta upphaf þess reyndist þegar til kom ekki rétt,“ sagði Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á miðvikudag þegar hann heimsótti bandaríska hermenn í borginni Ramadi í Írak.

„Jafnvel þótt útkoman sé góð fyrir Bandaríkjamenn þá verður hún alltaf í skugga þess hvernig til þess var stofnað.“

Gates tók í gær ásamt Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna, þátt í athöfn í höfuðstöðvum Bandaríkjahers skammt frá Bagdad í Írak í tilefni þess að Bandaríkjaher er hættur þátttöku í hernaðarátökum í Írak.

Enn eru þó 50 þúsund Bandarískir hermenn í landinu, en þeir eiga að sinna þjálfun og ráðgjöf fyrir íraska hermenn og lögreglumenn til loka næsta árs.

Barak Obama Bandaríkjaforseti viðurkenndi sömuleiðis í ávarpi til þjóðarinnar í gær hve tvíbent stríðið í Írak hafi verið. Hann sagði tíma kominn til að loka þessum kafla í sögu Bandaríkjanna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×