Erlent

Superman bjargaði deginum

Óli Tynes skrifar
Is it a bird?
Is it a bird?

Fjölskylda í suðurríkjum Bandaríkjanna var búin að missa heimilið sitt í hendur bankans. Hún var með tárin í augunum að pakka niður búslóðinni þegar nokkur gömul Superman blöð komu upp úr kassa í risinu.

Einhvern rámaði í að gamalt Superman blað hefði verið selt fyrir háa upphæð ekki alls fyrir löngu. Fjölskyldan hafði samband við ComicConnect.com sem sá um þá sölu.

Fjölskyldan óskar nafnleyndar en Vincent Zurzolo einn eigenda ComicConnect sagði í samtali við ABC fréttastofuna að fjölskyldan hefði sannarlega dottið í lukkupottinn.

Eitt blaðanna sé frá júní 1938. Það sé bæði óskaplega sjaldgæft og vel með farið.

Þeir hefðu því fyrir hönd fjölskyldunnar haft samband við bankann og beðið hann um að bíða með útburðinn. Fjölskyldan ætti von á peningum sem myndu meira en duga fyrir skuldinni.

Superman blaðið verður selt á uppboði á næstunni og lágmarksboð verður 250 þúsund dollarar. Það gerir um 30 milljónir króna.

En það er lágmarksboðið. Annað Superman blað frá svipuðum tíma seldist á endanum fyrir eina og hálfa milljón dollara. Það gerir tæpar 180 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×