Erlent

Stjórnin enn með minnihluta

Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra.
Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra. Mynd/AP

Endanlegar niðurstöðutölur þingkosninganna í Svíþjóð skiluðu stjórnarflokkum Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra samtals 173 þingsætum, en þá vantar tvö sæti upp á þingmeirihluta.

Rauðgræna stjórnarandstöðubandalagið fær 156 þingsæti en Svíþjóðardemókratarnir, jaðarflokkur hægri þjóðernissinna, er með 20 þingsæti.

Talningu utankjörstaðaatkvæða lauk ekki fyrr en í gær, og var afar mjótt á mununum í nokkrum kjördæmum. Hófsami flokkurinn, flokkur Reinfeldts, hyggst ekki kæra úrslitin.

Í gær var þó ekki búið að útiloka að telja þyrfti á ný í fáeinum kjördæmum, og í Vermalandi þarf hugsanlega að kjósa upp á nýtt vegna mistaka við framkvæmd kosninganna þar.

Reinfeldt segir að vegna andúðar Svíþjóðardemókrata í garð innflytjenda komi ekki til greina að bjóða þeim til stjórnarsamstarfs.

Umhverfisflokkurinn vill ekki segja skilið við rauðgræna bandalagið, þótt Reinfeldt hafi boðið honum í stjórnina.

Aðrir möguleikar eru því ekki í stöðunni fyrir Reinfeldt en að stjórna með minnihluta, sem þýðir að hann þarf að semja sérstaklega við stjórnarandstöðuna um umdeild mál. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×