Erlent

Vill dauðadóm yfir WikiLeaks hermanni

Óli Tynes skrifar
Bradley Manning.
Bradley Manning.

Bandarískur þingmaður telur að dæma eigi til dauða hermanninn sem sakaður hefur verið um að leka hernaðarupplýsingum til WikiLeaks vefsíðunnar.

Bradley Manning er sakaður um að hafa lekið myndbandi af árás bandarískrar herþyrlu á hóp manna í Írak fyrir nokkrum árum. Að minnsta kosti tíu féllu. Meðal þeirra voru tveir starfsmenn Reuters fréttastofunnar.

Nafn Mannings hefur einnig verið tengt við leka á níutíuþúsund leyniskjölum til WikiLeaks í síðustu viku.

Bandaríski þingmaðurinn Mike Rogers vill að Manning verði ákærður fyrir föðurlandssvik en við þeim liggur dauðadómur.

Rogers, sem er republikani segir að lekinn hafi stofnað lífi tugþúsunda bandarískra hermanna og bandamanna þeirra í hættu.

-Ef það eru ekki föðurlandssvik veit ég ekki hvað það er, segir Rogers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×