Viðskipti innlent

Félag að baki kísilmálmverksmiðju í miklum fjárhagserfiðleikum

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn.

Undirbúningur að byggingu kísilmálmverksmiðju við Þorlákshöfn virðist skammt á veg kominn, miðað við upplýsingar á vef kanadíska fyrirtækisins Timminco, eins aðila verkefnisins. Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins fyrir þriðja ársfjórðung 2009 að það eigi í miklum erfiðleikum og framtíð þess sé óviss.

Aðstæður á markaði séu óhagstæðar fyrir þær sólarkísilvörur sem fyrirtækið framleiðir. Sölutekjur Timminco námu 19 milljónum dala á fjórðungnum, borið saman við 69 milljónir sama fjórðung 2008. Óvissa um eftirspurn eftir framleiðslunni hafi áhrif á rekstrarhæfni og framtíð fyrirtækisins og getu þess til að halda áfram rekstri. Á heimasíðunni kemur fram að unnið hefur verið að því að breyta ýmsum skuldum Timminco í hlutafé.

Hvað varðar kísilmálmverksmiðjuna í Þorlákshöfn kemur fram að fyrir miðjan apríl verði ráðist í undirbúningsvinnu fyrir eina milljón Bandaríkjadala. Sú vinna verði grundvöllur ákvörðunar um hvort ráðist verður í gerð fýsileikakönnunar á rekstri kísilmálmverksmiðju á seinni hluta þessa árs.

Áætlaður kostnaður við undirbúninginn er ein milljón Bandaríkjadala. Strokkur ehf., íslenskur samstarfsaðili Timminco, sem hafði frumkvæði að byggingu álþynnuverksmiðjunnar við Eyjafjörð, greiðir þann kostnað en fær í staðinn skuldabréf í Bandaríkjadölum, sem ber 12% vexti og er á gjalddaga 1. maí næstkomandi. Útgefandi skuldabréfsins er Thorsil ehf. Það fyrirtæki er í eigu Strokks og Timminco og er viðsemjandi Orkuveitu Reykjavíkur í rammasamningi frá í fyrradag um kaup á 85 MW af orku frá væntanlegri Hverahlíðarvirkjun. - pg












Fleiri fréttir

Sjá meira


×