Erlent

Stjórnvöld banna útflutning á hveiti

Tuttugu prósent af hveitiuppskeru Rússlands hafa eyðilagst í skógareldunum.nordicphotos/AFP
Tuttugu prósent af hveitiuppskeru Rússlands hafa eyðilagst í skógareldunum.nordicphotos/AFP
Rússnesk stjórnvöld hafa bannað allan útflutning á korni til ársloka. Ástæðan er sú að tuttugu prósent af hveitiuppskeru landsins eyðilögðust í skógareldum. Bannið gæti framlengst telji stjórnvöld það nauðsynlegt.

Heimsmarkaðsverð á hveiti hækkaði nokkuð við þessi tíðindi, en það hafði þá þegar hækkað um 70 prósent nú í sumar. Sérfróðir segja verðhækkunina bitna meira á íbúum Mið-Austurlanda, Afríkuríkja og sumra Asíuríkja heldur en íbúum Evrópu og Ameríku.

Eldarnir í Rússlandi hafa nú orðið fimmtíu manns að bana og eyðilagt yfir tvö þúsund heimili. Þeir hafa geisað vikum saman í mið- og vesturhluta landsins en sumarið er það heitasta sem mælst hefur frá því skráningar hófust.

Eldar loguðu í gær á 600 stöðum og unnu tíu þúsund slökkviliðsmenn að því að halda þeim í skefjum. Stjórnvöld telja að fleiri þurfi að leggja hönd á plóg.

Vladimír Pútín forsætisráðherra hefur lofað því að ný hús verði byggð fyrir veturinn handa þeim sem misstu heimili sín.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×