Lífið

Viktor fékk viðurkenningu

Viktor Smári fékk viðurkenningu fyrir heiðarlega viðskiptahætti í endursölu listaverka.
fréttablaðið/vilhelm
Viktor Smári fékk viðurkenningu fyrir heiðarlega viðskiptahætti í endursölu listaverka. fréttablaðið/vilhelm
Samtökin Myndstef hafa veitt Viktori Smára Sæmundssyni viðurkenningu fyrir heiðarlega viðskiptahætti við endursölu listaverka. Þetta er í fyrsta sinn sem viðurkenningin er veitt.

Með veitingu viðurkenningarmerkis til listaverkasala hyggst Myndstef leitast við að greina á milli þeirra sem stunda viðskiptin með löglegum og heiðarlegum hætti og hinna sem fara ekki að reglum og draga sér með ólögmætum hætti fjármuni sem tilheyra listamönnunum. Myndstef eru samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundarréttar.

„Það er virkilega ánægjulegt að vera fyrstur til að fá þessa viðurkenningu,“ segir Viktor Smári, sem rekur Studio Stafn í Ingólfsstræti. „En í raun og veru ætti svona viðurkenning að vera óþörf því þetta fylgiréttargjald er bundið í lög og reglugerðir.“

Samkvæmt höfundalögum ber þeim aðilum sem starfa við endursölu á listaverkum að skila fylgiréttargjaldi af hverri sölu til Myndstefs og samtökin sjá um að koma þeim peningum til viðeigandi listamanna. Gjaldið var fyrst sett á með lögum á níunda áratug síðustu aldar en þá felldi Alþingi jafnframt niður söluskatt, síðar virðisaukaskatt, af þessum verkum. Þetta var gert til þess að örva listaverkamarkað á Íslandi. Misbrestur hefur verið á skilun fylgiréttargjalda um árin. Má þar minnast stóra málverkafölsunarmálsins auk þess sem Myndstef kærði Gallerí Fold á síðasta ári fyrir vanskil á fylgiréttargjöldum og var upphæð stefnunnar 21 milljón króna. Hópur myndlistarmanna mótmælti í kjölfarið starfsháttum Gallerí Foldar. „Eins og staðan hefur verið er ólíðandi fyrir aðra á markaðnum sem standa við sitt að fyrirtæki komist upp með að innheimta þessi gjöld en standa ekki skil á þeim,“ segir Viktor.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.