Lífið

Hundfúll að vera fastur í Finnlandi

Kristján Már fór á kostum í umfjöllun sinni um gosið á Fimmvörðuhálsi. Hann er hundfúll yfir því að vera í Finnlandi á meðan eldgosið í Eyjafjallajökli lamar allar flugsamgöngur í Evrópu.
Fréttablaðið/Anton
Kristján Már fór á kostum í umfjöllun sinni um gosið á Fimmvörðuhálsi. Hann er hundfúll yfir því að vera í Finnlandi á meðan eldgosið í Eyjafjallajökli lamar allar flugsamgöngur í Evrópu. Fréttablaðið/Anton

„Það er bara skelfilegt að vera hérna, það er það," segir Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, en hann er staddur í Finnlandi ásamt samstarfsmanni sínum, Heimi Má Péturssyni, á ráðstefnu norrænna fréttamanna.

Kristján fór á kostum í fréttum af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi nýverið þar sem hann komst í einstakt návígi við hrikalega krafta úr iðrum jarðar. Kristján er eldri en tvævetur þegar kemur að eldgosum en hann hefur fjallað um sex eða sjö eldgos á sínum fréttamannsferli.

„Við erum hérna 25 fréttamenn og það er ekkert rætt um annað, menn hafa áhyggjur af því að komast ekki heim," segir Kristján.

Þótt reynsluboltinn vilji gera lítið úr fjarveru sinni þá má greina að honum þyki verra að standa ekki við Markarfljót eða vera uppi í flugvél með jarðeðlisfræðingum. Því í bakgrunni símtalsins má heyra lýsingar fréttamanna BBC á eldgosinu og það stendur ekki á aðdáuninni þegar myndir frá Eyjafjallajökli líða yfir skjáinn.

„Nei, nei, þetta eru svakalegar myndir, vá, þetta er bara aðalfréttin í heiminum," segir Kristján og tekur sér smá stund til að drekka í sig þessar hrikalegu náttúruhamfarir sem hafa lamað flugumferð um alla Evrópu.

Kristján minnist þess að fyrsta eldgosið sem hann hafi séð hafi verið Surtseyjargosið, „En þetta gos, eldgosið í Eyjafjallajökli, þetta er sennilega það gos sem hefur fengið hvað mestu athyglina, það er heimsfrægt." - fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.