Viðskipti innlent

Skuldabréf Landsbankans hafa tvöfaldast í verði

Skuldabréf Landsbankans halda áfram að hækka og eru í dag skráð á 8% af nafnverði á viðskiptavefnum Keldan.is. Þau hafa því tvöfaldast í verði frá því að forseti Íslands ákvað að vísa Icesave málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eins og fram kom í frétt hér á síðunni hækkuðu skuldabréf Landsbankans um tæp 40% í verði skömmu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tilkynnti um ákvörðun sína í Icesave málinu í upphafi janúar.

Verðið á skuldabréfum í föllnu íslensku bönkunum hefur verið skráð á vefsíðuna Keldan frá því að sú síða opnaði fyrir rúmlega þremur mánuðum. Verðið á skuldabréfum Landsbankans lá lengst í kringum 4% af nafnverði bréfanna fram að ákvörðun forsetans. Eftir ákvörðun forsetans hækkuðu bréfin strax upp í 5,5% af nafnverði eða um tæp 40%. Síðan hafa þau haldið áfram að hækka.

Markaðurinn með þessi skuldabréf er óskilvirkur og ógagnsær en þeir sem kaupa Landsbankabréfin eru sennilega að veðja á að eitthvað fáist úr þrotabúi bankans umfram forgangskröfur. Verðið á bréfunum er lítt skiljanlegt í ljósi þess að margoft hefur komið fram að ekki fáist upp í forgangkröfurnar í búið.

Einnig gæti verið um að ræða kaup áhættufjárfesta sem veðja á að neyðarlögin frá haustinu 2008 muni ekki halda og þar með riðlist röð forgangskrafna í þrotabú Landsbankans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×