Innlent

Mega veiða fleiri hvali

Ágreiningur varð á ársfundinum um veiðar Japana á stóru griðasvæði í Suðurhöfum, sem andstæðingar hvalveiða hafa lengi barist gegn. Á myndinni er skipst á sendingum milli skips Sea Shepherd-samtakanna og japansks hvalveiðiskips.norciphotos/AFP
Ágreiningur varð á ársfundinum um veiðar Japana á stóru griðasvæði í Suðurhöfum, sem andstæðingar hvalveiða hafa lengi barist gegn. Á myndinni er skipst á sendingum milli skips Sea Shepherd-samtakanna og japansks hvalveiðiskips.norciphotos/AFP

Frumbyggjar á Grænlandi hafa fengið heimild til að veiða fleiri hvali. Á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hófst síðasta mánudag í Marokkó, var samþykkt tillaga frá Danmörku, fyrir Grænlands hönd, um árlegan kvóta upp á níu hnúfubaka, sem kemur til viðbótar við núverandi frumbyggjaveiðar þeirra.

Ársfundinum lauk í gær án niðurstöðu um málamiðlunartillögu formanns og varaformanns ráðsins, sem fyrirfram voru bundnar miklar vonir við að myndi sætta þau ríki ráðsins sem stunda hvalveiðar og hin sem eru andvíg hvalveiðum.

„Það verður gert árshlé á sáttaumleitunum í ráðinu. Þeim verður haldið áfram á næsta ársfundi," segir Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í ráðinu. „Staða okkar er í sjálfu sér óbreytt."

Árni Finnsson, formaður stjórnar Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir hins vegar að jafnvel þótt málamiðlunartillagan hafi ekki náð fram að ganga hafi „hvalveiðistefna Jóns Bjarnasonar og hagsmunir Kristjáns Loftssonar engu að síður beðið hnekki vegna þess að Japan var reiðubúið til að samþykkja ákvæði þess efnis að hvalveiðar yrðu eingöngu til innanlandsneyslu."

Tómas segir þetta samt ekki rétt. Hann hafi fengið staðfestingu á því að Japanar myndu ekki fallast á nokkra takmörkun á viðskiptum með hvalaafurðir á fundi, sem hann og aðalfulltrúi Noregs í ráðinu, áttu með aðstoðarsjávarútvegsráðherra Japans.

Ísland og Noregur voru andvíg þessu ákvæði, sem var innan sviga í málamiðlunartillögu formannanna og hefði gert Íslendingum ókleift að selja hvalaafurðir til annarra landa.

Þetta ákvæði kom hins vegar aldrei til umræðu á fundinum vegna andstöðu Ástralíu, Suður-Ameríkulanda og sumra Evrópusambandsríkja við að heimila takmarkaðar veiðar samkvæmt árlegum kvóta frá ráðinu, meðal annars á griðasvæði í Suðurhöfum þar sem Japanar hafa stundað vísindaveiðar.

Tómas segir hins vegar að Grænlendingar hafi unnið stærsta sigurinn á ársfundinum þegar viðbótarkvóti þeirra var samþykktur.

„Grænland var búið að gefa til kynna að það myndi íhuga mjög alvarlega að segja sig úr ráðinu ef þessi tillaga yrði felld. Ég held að það hafi haft mjög mikið að segja um að ríkin ákváðu að krefjast ekki atkvæðagreiðslu," segir Tómas, enda hafi ráðið í reynd enga stjórn lengur á neinum hvalveiðum öðrum en veiðum frumbyggja. Það hefði því veikt ráðið enn frekar ef Grænlendingar hefðu sagt sig úr því.

Á fundinum fengu Bandaríkjamenn hins vegar ekki framgengt tillögu um framhald á frumbyggjakvóta sínum eftir árið 2012, þótt þeir hafi lagt mikla áherslu á það.

gudsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×