Skoðun

Náungasamfélagið

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifa um samfélagsmál

Kunningjasamfélagið er eitt af stóru vandamálunum sem Ísland glímir við í dag. Í unningjasamfélagi ganga þau fyrir sem eru tengd okkur á einhvern hátt, á kostnað hagsmuna heildarinnar. Í kunningjasamfélagi skilgreinum við þau sem eru verð umhyggju okkar og góðra verka, eftir því hvernig þau tengjast okkur. Við sjáum öll óréttlætið og óhagkvæmnina sem þrífst í skjóli kunningjasamfélagsins. Það er óréttlátt, því það útilokar suma frá því sem þeim ber. Það er óhagkvæmt vegna þess að sá eða sú rétta víkur fyrir þeim sem kemst áfram á tengslum. Þá fer heildin halloka.

Kunningjasamfélagið Ísland þarf að umbreytast. Það þarf að umbreytast yfir í náungasamfélag. Í náungasamfélagi njóta allir sannmælis og eru virtir, óháð hverjum þeir tengjast og hverjum þeir eru kunnir. Í náungasamfélagi sjáum við þarfir og hagsmuni hvert annars og virðum þau sem eru ólík og ókunn okkur. Náungasamfélagið viðurkennir að við erum öll á sama báti og gefur jöfn tækifæri.

Við sem búum á Íslandi þurfum að vinna saman að því að gera samfélagið okkar betra, mannvænna og sanngjarnara. Við þurfum að skipta gæðunum jafnt – og ekki láta ráða úrslitum hver sé kunningi okkar, heldur að hver og einn er náungi okkar. Það þýðir að við erum tilbúin að leggja á okkur að sjá til þess að aðrir – náungar okkar – hafi eitthvað til að bíta og brenna, að þeir geti leitað í öruggt skjól og að þeim sé sinnt þegar veikindi knýja dyra. Það þýðir að við leggjum þetta á okkur, án þess að ætlast til þess að fá eitthvað í staðinn fyrir okkur sjálf.

Með því að stíga skrefið frá því kunningjasamfélagi til náungasamfélags, getum við vaxið saman og byggt sanngjarnt og réttlátt Ísland. Þangað eigum við að stefna.

Höfundar eru prestar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×