Erlent

Einn....eh....þrír....eh

Óli Tynes skrifar

Brúðkaup fertugra hjóna á Helsingör fékk snautlegan endi um helgina. Brúðhjónin voru bæði fráskilin og sitthvora dótturina sem eru um 11 ára gamlar.

Þær fengu að vera viðstaddar brúðkaupið og fóru með á heimili nýju hjónanna.

Fyrrverandi eiginkona mannsins býr á Jótlandi. Hún var eitthvað óróleg yfir símtali við dóttur sína um kvöldið og hafði samband við lögregluna í Helsingör.

Lögreglan kíkti á málið og Erik Skriver vaktstjóri sagði í samtali við danska blaðið BT að brúðhjónin hefðu verið svo drukkin að þau gátu ekki talið lögregluþjónana sem mættu á staðinn.

Dæturnar höfðu verið beðnar um að halda sig inni í herbergi en lögreglunni þótti rétt að taka þær með sér á lögreglustöðina þar sem starfsfólk barnaverndarnefndar tækju við þeim.

Eitthvað saknaði pabbinn dóttur sinnar og kom því akandi í stórum sveigum og miklum rykkjum að lögreglustöðinni og slagaði inn.

Þar fékk hann að eyða brúðkaupsnóttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×