Fjallað er um málið á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að fjölgun gistinátta í júní nær til allra landsvæða. Mest varð fjölgun gistinátta á Vesturlandi og Vestfjörðum um 13%, úr 6.500 í 7.300. Á Suðurnesjum fjölgaði gistinóttum um 12% milli ára og fóru úr 5.800 í 6.500.
Gistinóttum á Suðurlandi fjölgaði um 7% og úr 20.000 í 21.300 samanborið við júní 2009. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 6%, voru 14.600 en fóru í 15.500. Á Austurlandi jukust gistinætur úr 7.500 í 7.900 eða um 5% samanborið við júní 2009. Á Höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum einnig úr 94.400 í 98.400 eða um 4% miðað við sama tímabil 2009.
Fjölgun gistinátta á hótelum í júní nær eingöngu til erlendra gesta, en gistinóttum Íslendinga á hótelum fækkaði um 20% samanborið við júní 2009 á meðan gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 10%.
Gistinætur fyrstu sex mánuði ársins voru 573.400 en voru 570.400 á sama tímabili 2009. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi um 6%, á Norðurlandi um 5% og um 4% á Austurlandi samanborið við sama tímabil 2009. Á öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum milli ára eða fjöldinn er svipaður.
Fækkun á Vesturlandi og Vestfjörðum yfir þetta tímabil var 2% og innan við 1% á Suðurnesjum og á Höfuðborgarsvæðinu.
Fyrstu sex mánuði ársins fækkar gistinóttum Íslendinga um 7% á meðan gistinóttum útlendinga fjölgar um 3% miðað við sama tímabil 2009.