Viðskipti innlent

Matvara og drykkir kynda undir verðbólguna

Er þar fyrst og fremst um að ræða hækkun á innlendri framleiðslu, sér í lagi grænmeti sem hækkar um ríflega 12% frá marsmánuði.
Er þar fyrst og fremst um að ræða hækkun á innlendri framleiðslu, sér í lagi grænmeti sem hækkar um ríflega 12% frá marsmánuði.
1% hækkun matvöru og drykkja er helsti hækkunarvaldurinn á bakvið verðbólgumælinguna að þessu sinni og hefur áhrif til 0,17% hækkunar á vísitölu neysluverðs (VNV). Er þar fyrst og fremst um að ræða hækkun á innlendri framleiðslu, sér í lagi grænmeti sem hækkar um ríflega 12% frá marsmánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um verðbólgumælingu Hagstofunnar fyrir apríl sem birt var í morgun. Samkvæmt mælingunni lækkaði verðbólgan aðeins eða úr 8,5% og niður í 8,2%. Þessu hafði greiningin spáð nákvæmlega fyrir fyrr í mánuðinum.

Alls hækka innlendar búvörur og grænmeti um 2,2% á milli mánaða á meðan innfluttar mat- og drykkjarvörur hækka um 0,4%. Þá hækkar ferða- og flutningaliður vísitölunnar um 0,5% á milli mánaða (0,07% í VNV) og skýrist sú hækkun bæði af verðhækkun nýrra bíla og hækkun á rekstrarkostnaði.



Húsnæðisliður vísitölunnar hækkar um 0,23% í apríl (0,06% í VNV), fyrst og fremst vegna hækkunar á efniskostnaði við viðhald og greiddri húsaleigu.

„Þróun síðarnefnda liðarins, sem vegur tæplega 3% í VNV, er raunar vægast sagt furðuleg, en hann hefur hækkað um ríflega 8% frá ársbyrjun 2009 á sama tíma og ýmsar vísbendingar eru um verulega verðlækkun á leigumarkaði á þessu tímabili. Kann það að skýrast af miklu vægi opinberra leigusamninga, s.s. stúdentaíbúða og félagslegra íbúða, í þessum lið, en slíkir samningar eru oft verðtryggðir. Reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð íbúðarhúsnæðis, lækkaði hins vegar um 0,2% milli mánaða," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×