Innlent

Almannavarnastig vegna Eyjafjallajökuls lækkað

Í ljósi þess að langur tími er nú liðinn án gosvirkni í Eyjafjallajökli og vísindamenn fullyrða að nýr atburður í jöklinum hefði greinilegan fyrirvara, hefur verið ákveðið að lækka almannavarnastig frá neyðarstigi niður á óvissustig samkvæmt tilkynningu frá almannavardeild ríkislögreglustjóra.

Eldgosið í Eyjafjallajökli hófst 14. apríl s.l. og voru síðustu merki um eldgos í byrjun júní. Vegna þekktrar sögu eldfjallsins um löng hlé á umbrotum var ekki talið óhætt að aflétta viðbúnaði strax.

Frá því snemma í sumar hefur þó smám saman verið dregið úr viðbúnaði þó að mörg verkefni hafi verið unnin áfram. Má þar nefna aukna vöktun, viðbrögð vegna aurflóða og mat á tjóni.

Óvissustig er lægsta almannavarnastigið og með því að hafa það í gildi er verið að tryggja að áfram verið vöktun og eftirlit með þeim þáttum sem snúa að framvindu í eldfjallinu sem og þeim atriðum sem snúa að afleiðingum gossins svo sem aurflóðum og öskufoki, sem enn eiga sér stað.

Á sama tíma eru felldar úr gildi þær takmarkanir sem gilt hafa um umferð gangandi fólks sem og vélknúinna ökutækja á Eyjafjallajökli. Þrátt fyrir þetta er bent á, að jökullin er mjög hættulegur yfirferðar, þar sem hann er mjög sprunginn og þakinn mikilli ösku.

Enn er hætta við eldstöðvarnar bæði á Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi vegna eitraðra gastegunda, sem streyma frá þeim. Einnig sýna mælingar að ennþá er gríðarlegur hiti í hrauninu og næst eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi hefur nýlega mælst 800 gráðu hiti á 10 sm dýpi.

Þessi ákvörðun á ekki að hafa áhrif á þau mál sem nú eru í vinnslu og snúa að tjónabótum og öðrum málum tengdum afleiðingum eldgossins.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×