Viðskipti innlent

Hefur ekki sést í tuttugu ár

Selfoss siglir með vörur. Útlit er fyrir að afgangur af vöruskiptum við útlönd í fyrra verði rúmir sjötíu milljarðar króna.Fréttablaðið/vilhelm
Selfoss siglir með vörur. Útlit er fyrir að afgangur af vöruskiptum við útlönd í fyrra verði rúmir sjötíu milljarðar króna.Fréttablaðið/vilhelm

Afgangur af vöruskiptum nam sjö milljörðum króna í desember á nýliðnu ári, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar, sem birtar voru í gær. Gangi þetta eftir verður afgangur af vöruskiptum 72,9 milljarðar króna á öllu síðasta ári.

Samkvæmt bráðabirgðatölunum nam útflutningur í desember 42 milljörðum króna en innflutningur 35,1 milljarði, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Hækkandi álverð vegur upp minna verðmæti útfluttra sjávarafurða í mánuðinum. Þá dróst innflutningur mjög saman milli mánaða.

Talsverður viðsnúningur varð á vöruskiptum við útlönd á seinni hluta árs 2008 eftir nær samfelldan halla frá aldamótum. Afgangur var af vöruskiptum í hverjum mánuði í fyrra en slíkt hefur ekki sést hér í meira en tuttugu ár.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Íslandsbanka, segir að legið hafi fyrir að afgangurinn myndi verða nálægt fimm prósentum af vergri landsframleiðslu og gæti spá Seðlabankans um 6,7 prósent afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á síðasta ári gengið eftir.

Jón benti á það í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, á miðvikudag viðsnúninginn ekki skýrast að jafn miklu leyti af gengisfalli krónunnar og af sé látið. Samdrátturinn í vöruinnflutningi sé líkur því sem verið hefur á Írlandi og Lettlandi, löndum sem kreppan hefur leikið grátt.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×