Viðskipti innlent

Salan fyrir luktum dyrum og kaupverð ekki gefið upp

Stjórnarformaður Heklu og fyrrverandi forstjóri félagsins keypti Vélasvið Heklu út úr fyrirtækinu í byrjun sumars. Arion banki á Heklu en salan fór fram fyrir luktum dyrum og kaupverð er ekki gefið upp.

Knútur Hauksson, fyrrverandi forstjóri Heklu, keypti fyrirtækið ásamt öðrum fjárfestum og varð forstjóri þess árið 2006. Illa fór í hruninu og tók Kaupþing fyrirtækið yfir. Knútur stýrði fyrirtækinu samt áfram.

Hekla hefur verið í höndum Arion banka allra síðustu misserin, en það var í sumar, að vélasvið Heklu var selt út úr fyrirtækinu. Salan var ekki auglýst. Kaupandinn var forstjórinn Knútur Hauksson. Hann, ásamt stjórnendum vélasviðsins hefur stofnað fyrirtækið Klett utan um reksturinn. Knútur er nú framkvæmdastóri Kletts, en jafnframt stjórnarformaður Heklu.

Klettur, áður vélasvið Heklu, er meðal annars með umboð fyrir Catepillar vélar, Dunlop, Goodyear og Scania.

Segja má að vélasviðið hafi verið mikilvægt fyrir Heklu í gegnum tíðina en Caterpillar vinnuvélar hafa til dæmis komið að öllum helstu stórframkvæmdum á sviði jarðvinnu hérlendis.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir að staða vélasviðsins hafi verið þannig að ekki hafi þótt kostur að setja það í opið og gagnsætt söluferli. Til að mynda hafi Knútur og félagar sjálfir haft einkarétt að Catepillar umboðinu.

Knútur tekur undir það. Catepillar feli einungis einstaklingum umboðið, ekki fyrirtækjum. Sverrir Viðar Hauksson, núverandi forstjóri Heklu segir að Tryggvi Jónsson, forveri Knúts, hafi haft umboðið í sinni forstjóratíð.

Kaupverðið fæst ekki gefið upp. Knútur Hauksson segir að í kaupunum felist yfirtaka á skuldum og að nýir eigendur leggi Kletti til töluvert rekstrarfé.

Í lok árs 2008 námu skuldir Heklu ríflega tíu milljörðum króna, en eignir félagsins námu þá um helmingi þess.

Sverrir Viðar, segir að í venjulegu árferði hafi starfsemi vélasviðsins verið um fjórðungur starfseminnar.

Berghildur Erla hjá Arion banka segir að bílasvið Heklu fari í söluferli á næstu mánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×